Í morgun vöknuðu stelpurnar hressar kl.09.  Eftir morgunmatinn var fáninn hylltur og svo var drifið í að laga til í herbergjum áður en blíulesturinn hófst.  Í fyrsta biblíulestrinum fengu þær að kynnast Biblíunni og lærðu að fletta upp í Nýja testamentinu.

Brennókeppnin tók við eftir biblíulestur og þar var hart barist, enda stefna öll lið að því að verða brennó meistarar.  Í hádegismat fengum við svo gómsætt hakk og bleikt spaghetti.  Næst var svo haldið á Ölversleikana og óhætt er að segja að keppnisgreinarnar hafi verið frumlegar og fjölbreyttar.  Þar var til dæmis keppt í fiskibollukasti, rúsínuspýtingum og ljóðagerð.

Kryddskúffukaka og kornflexkökur runnu ljúflega niður í kaffitímanum.  Ein stúlka í hópnum átti afmæli í dag og var sungið fyrir hana auk þess sem hún fékk kórónu í tilefni dagsins.  Eftir kaffi skelltu allar stúlkurnar sér í  heitapotinn, auk þess sem Skógarver og Hlíðarvel æfðu atriði fyrir kvöldvökuna.  Stúlkurnar í Fuglaveri buðu upp á nudd og hárgreiðslu allann daginn og fengu þær fjölmargar heimsóknir í dekrið.

Í kvöldmatinn var svo kakósúpa og brauð, sem stúlkurnar borðuðu með bestu list.  Kvöldvakan var að vanda fjörug og skemmtileg þar sem var hugleiðing, söngur, leikir og mikil gleði.

Um það bil þegar ró var að komast á húsið fóru syngjandi foringjar um gangana og sóttu stúlkurnar, því nú skyldi halda náttfatapartý.  Þar sáu foringjarnir um  að skemmta og partýið endaði svo á því að allir fengu íspinna sem vakti mikla lukku.  Svo var tannburstað aftur og eftir það fóru allar í rúmið, þreyttar eftir skemmtilegan dag og heimþráin sem einhverjar höfðu fundið örlitið fyrir fyrsta kvöldið var gleymd.

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157669077670430