Í dag voru stúlkurnar vaktar kl.09:30 og voru þær allar ánægðar með að fá að sofa aðeins lengur. Eftir fánahyllingu, tiltekt og biblíulestur var síðasti dagur brennókeppninnar – þar sem verðlaunaliðið kom í ljós og mun það keppa við foringjana á brottfarardegi.
Í hádegismat fengum við pasta og hvítlauksbrauð. Þegar allir voru búnir að borða var kallað á allar stúlkurnar inn í matsal því nú var farið í ævintýraleikur þar sem stúlkurnar fengu að kynnast ýmsum furðuverum.
Strax og þessu ævintýri lauk var haldið í það næsta, því á staðinn var komin maður sem sagðist vera með rútu hér fyrir utan Ölver og ætlaði að bjóða stúlkunum að koma í óvissuferð og eina sem þær þyrftu með sér væru regnföt og stígvél. Komu allir sér vel fyrir í rútunni og haldið var af stað. Einhverjar fór að gruna hvert ferðinni var heitið þegar beygt var inn í Hvalfjörð en aðrar voru alveg grunlausar allt þar til beygt var upp í Vatnaskóg og brutust út mikil gleðilæti. Byrjuðum við á að fá okkur kaffi í matsal, sem við höfðum tekið með okkur og var boðið upp á kanillengju og Rice Crispies kökur.
Þeim stúlkum sem vildu var boðið að fara á mótórbát út á vatn en hinar og svo þær sem voru búnar að fara út á vatn, könnuðu svæðið og léku sér.
Eftir góða skemmtun var haldið heim á leið og í rútunni var mikið spjallað og hlegið. Takk fyrir okkur kæru Skógarmenn.
Fljótlega eftir heimkomu fengum við pylsur að borða, enda allar orðnar svangar eftir mikla útiveru og fjör. Á kvöldvökunni var það Hamraver sem sá um skemmtiatriðin og bauð upp á tvö leikrit. Kvöldvakan endaði með óvæntum hætti en þá ruddist óboðnir gestur inn og tók nú við hinn spennandi hermannaleikur, sem margar hverjar voru búnar að biða eftir alla vikuna. Allar komu svo blautar en kátar inn í kvöldkaffi, þar sem þær fengu ávexti og heitt kakó.
Það voru þreyttar en afskaplega glaðar stúlkur sem lögðust á koddan þetta fimmta kvöld ævintýraflokks, eftir fjörugan dag.