Í dag þegar stúlkurnar voru vaktar voru þær snöggar á fætur og að græja sig fyrir morgunmat. Eftir fánahyllingu og biblíulestur var frjáls tími í smá stund. Nokkrar fóru að undibúa hálgreiðslukeppnina eftir hádegi, aðrar gerðu vinabönd og einnig var spilað, lesið og teiknað.
Í hádegismat fengum við dásamlega delux ávaxtasúrmjólk og brauð. Þegar allir höfðu borðað nægju sína fékk hvert herbergi blað með fullt af spurningum sem þær áttu að leysa í sameiningu. Tóku þær keppninni mjög alvarlega og svöruðu samviskusamlega öllum spurningum og verða úrslitin kynnt á lokadeginum. Öll herbergi fóru svo í heitapottinn eða sturtu til að geta klætt sig hreinar og fínar í sparifötin eftir kaffið.
Eftir kaffi, þar sem við fengum kanilsnúða og skúffuköku með grænu kremi, var hárgreiðslukeppni og ljóst er að hér í flokknum er margar flinkar stúlkur með mikið hugmyndarflug. Glæsilegar greiðslur litu dagsins ljós enda hefur megnið af hópum verið í því allar vikuna að flétta greiða hvor annarri. Sama gildir hér og um aðrar keppnisgreinar vikunnar, að verðlaun verða veitt á lokadeginum.
Þegar fór að líða að kvöldmat fóru þær stúlkur sem ekki þegar voru komnar í spariföt og græjuðu sig. Klukkan 19 var blásið í kvöldmat – veislumat og fengum við gómsæta hamborgara og franskar karöflur.
Á kvöldvökunni sáum foringjar, aðstoðarforingjar og forstöðukona um skemmtiatriðin og skemmtu allir sér konunglega. Fyrir svefninn fengu þær kvöldkaffi, popp og sleikjó í tilefni þess að tvær stúlknanna eiga afmæli á morgun.
Örþreyttar, ánægðar og frábærar stúlkur fóru í bólið í kvöld og voru ekki lengi að sofna, allar tilbúnar í lokadaginn. En á morgun verður foringjabrennóið æsispennandi, lokastund, verðlaunaafhending og auðvitað tiltekt fyrir heimferð.
Þökkum við fyrir frábæra viku með þessu flottu stúlkum sem hér hafa verið og förum allar heim með fullt af dýrmætum minningum.
Brynja Vigdís forstöðukona