Það voru 46 glaðbeittar og spenntar stúlkur sem komu til okkar í gær, um þriðjungur þeirra hefur komið áður hingað svo flestar eru að kynnast staðnum í fyrsta sinn. Eftir að stúlkurnar höfðu komið sér fyrir var hádegismatur, jarðaberjajógúrt og brauð. Því næst var skoðunarferð um svæðið og hópurinn hristur saman. Kaffitíminn var á sínum stað með heimabökuðu bakkelsi. Eftir kaffitímann hófst brennókeppnin. Kvöldmaturinn var svo í fyrra fallinu en mikill áhugi var hjá stelpunum að sjá leikinn og að sjálfsögðu var hann sýndur og var mikill spenningur og ætlaði allt um koll að keyra þegar mörkin voru skoruð. Í hálfleik var popp. Eftir leikinn var svo kvöldvaka og hugleiðing og ávextir í kvöldhressingu.
Það bar á einhverri heimþrá eins og oft á fyrsta kvöldi en eftir svefn næturinnar var hún að mestu gleymd 🙂
Dagurinn í dag hefur verið góður, biblíulestur, brennó, útivera, potturinn og kvöldvaka á sínum stað. Stelpurnar sáu um skemmtiatriði og var mjög gaman að fylgjast með þeim æfa og stíga á stokk.
Mun betur gekk að sofna í kvöld og var komin ró í skálann rétt um ellefu.
Bestu kveðjur héðan úr Ölveri