Það má segja að síðustu dagar hér hjá okkur hafi einkennst af skini og skúrum, veðrið hefur verið milt og gott en það koma hressilegi rigningarskúrir á milli. Stelpurnar hafa ekki látið það á sig fá og hafa notið þess að vera úti.

Morgundagskráin er yfirleitt í föstum skorðum hér, eftir morgunmat (þar sem hafragrauturinn er að slá öll met í vinsældum þessa vikuna) er fánahylling og tiltekt, þá biblíufræðsla og söngur. Að því loknu er brennókeppni og í dag mun það einmitt skýrast hvaða lið fer með sigur af hólmi og fær að mæta starfsfólkinu í leik á morgun. Í hádegismat var svo steiktur fiskur, karteflur, sósa og salat. Eftir mat hófust svo Ölversleikar  á fótboltavellinum þar sem keppt var í ýmsum þrautum eins og rúsínuspýtingum og stígvélasparki.  Við settum líka stóra hoppudýnu í gang sem hefur verið vinsæl. Eftir kaffitímann, sem samanstóð af bananaköku og pizzasnúðum, fór svo helmingurinn í heita pottinn og hinn helmingurinn undirbjó leikrit fyrir kvöldvökuna, sum herbergin voru búin að æfa og frumsemja leikrit sem var kostulegt að fylgjast með.

í kvöldmat var boðið upp á fjölbreyttan pastasalatbar og voru stelpurnar hæstánægðar með að geta valið sér sjálfar á diskinn.

Það var einhver heimþrá fyrir svefninn, en ró var komin á um ellefu og gott að geta huggað sig við nú styttist í heimferð.

Í dag er svo runninn upp síðasti heili dagurinn okkar, veisludagurinn, sem endar með veislumat og kvöldvöku þar sem starfsfólkið stigur á stokk með leikrit og dans.

Myndir frá dvölinni má nálgast hér

Bestu kveðjur,

Erna Björk Harðardóttir, forstöðukona