Dagurinn í gær var dásamlegur og veðrið lék við okkur. Eftir hádegið var farið niður að Hafnará að vaða og seinnipartinn skelltu flestar stelpurnar sér í pottinn. Kvöldmaturinn var borðaður niðri í laut þar sem grillaðar voru pylsur í hjólbörum. Einnig fengu stelpurnar að grilla sykurpúða í eftirrétt. Skálað var svo í nýja vatninu okkar en við í Ölveri eru himinlifandi yfir að vatn fannst á landinu okkar við fyrstu borun og það er hreint og drykkjarhæft 😉 Í gær tókst okkur svo að fjármagna nýju vatnsleiðsluna í gegnum Karolinafund 100% svo gleðin var við völd 😉 Nú eigum við ekki lengur hættu á því að verða vatnslaus um mitt sumar og er það þakkarvert.
Kvöldvakan var frábær og þar sáu tvö herbergi um að skemmta okkur með leikjum og leikritum. Allir fóru síðan í háttinn eftir kvöldkaffi en þá var blásið óvænt til náttfatapartýs þar sem allir skemmtu sér konunglega við dans og leik.
Ró var komin um miðnætti. Mikið logn var og heitt svo ekki svo elskulega lúsmýið var að hrella okkur aðeins en bitin eru samt sem betur fer ekki svo mörg og stelpurnar kvarta lítið. Þetta er víst eitthvað sem við verðum að læra að lifa með.
Í dag vöknuðu allar stelpunar við ljúfan söng og gítarspil eins foringjans og fengu morgunmat. Þá var fánahylling og biblíulestur sem var haldinn inni í dag þó veður sé gott. Í dag veltu þær fyrir sér hvað væri að vera ljós og hvernig við gætum byggt líf okkar á góðum grunni. Þær komu með dásamlegar uppástungur eins og að sýna kærleika og hálpsemi. Að virða sjálfan sig og elska sig, að standa með sér, að virða aðra og dæma ekki, að vera tillitsamur og kurteis. Að hugsa vel um náttúruna, sýna öðrum skilning, að vera sjálfstæður og hugrakkur, vera traustur og trúa svo eitthvað sé nefnt 😉
Nú eru þær úti í brennóbolta og svo er komið að hádegisverði en í matinn er pasta og brauð.
Fleiri fréttir koma héðan á morgun!
Kær kveðja frá okkur úr Ölveri