Gærdagurinn, miðvikudagurinn 6.júlí, var frábær hér á bæ eins og allir aðrir dagar. Eftir hádegið voru haldnir svokallaðir Ölversleikar þar sem stelpurnar kepptu í alls kyns skrítnum íþróttagreinum. Ölversleikadrottningin verður síðan krýnd síðasta daginn á verðlaunaafhendingunni. Eftir kaffi þar sem þær fengu ljúffengt bananabrauð og smákökur var haldin hárgreiðslu-og heildarútlitskeppni þar sem þemað var náttúran. Hvert herbergi vann saman og greiddu þær, hönnuðu búning og skreyttu eina sem var valin sem módel. Haldin var svo allsherjar tískusýning við mikinn fögnuð. Endilega skoðið afraksturinn undir ljósmyndir.

Í kvöldmatinn var svo lasagne og hvítlauksbrauð og borðuðu þær mjög vel. Kvöldvakan var í boði stelpnanna sem skemmtu með leikjum og leikritum. Eftir kvöldvöku var svo „movie-night“ þar sem þær lágu á flatsæng og horfðu á kvikmynd og borðuðu popp. Ró var komin á um miðnætti.

Í dag byrjaði dagurinn eins og alla daga með morgunmat, fánahyllingu og morgunstund þar sem þemað var kærleikur. Í dag verður það þemað okkar og munum við vinna út frá því á margskonar hátt. Meira um það á morgun!

Kærleikskveðjur

Erla Björg