Héðan er allt frábært að frétta. Ég var að segja það við stelpurnar áðan að ef ég mætti velja mér hóp af stelpum sem væri svona draumaflokkur þá myndi ég velja þær 😉 Þær eru allar svo frábærar, sjálfum sér nógar, til í allt, kvarta aldrei, þær eru einfaldlega bestar!
Í gær var farið í ratleik eftir hádegi þar sem herbergin voru saman í liði og svöruðu alls kyns skemmtilegum spurningum. Eftir kaffi var haldin hæfileikakeppni með mjög góðri þátttöku og flottum atriðum. Eftir kvöldmat sem var pastasalat og pizzabrauð var kvöldvaka þar sem síðasta herbergið var með atriði en nú í kvöld munu foringjarnir sjá um að skemmta með hinum sívinsælu sumarbúðarleikritum.
Um kvöldið var svo óvæntur „hermannaleikur“ sem er í raun eltingaleikur með tilgangi, sem er að setja sig í spor flóttafólks. Stelpurnar þurftu að flýja undan „hermönnum“ sem reyna að fanga þær en þeirra er að leysa alls kyns verkefni sem gefur þeim miða í flóttamannabúðir þar sem þær eru komnar í öruggt skjól. Eftir leikinn fóru bænakonur inn á herbergin og komu á ró en settust síðan allar fram og sungu fyrir stelpurnar sem sofnuðu vært undir dásamlegum söng.
Í dag fengu stelpurnar að sofa aðeins lengur. Þær eru búnar að fara á Biblíulestur það sem þær lærðu um að trúin sé sterkri en óttinn, að Guð sé með okkur í gleði og sorg og að við getum alltaf treyst á hann. Nú stendur yfir dansmorgunpartý! Í dag er veisludagur og eiga stelpurnar von á skemmtilegum degi, veislumáltíð í kvöld og hátíðarkvöldvöku. Meira af því á morgun.
Kær kveðja
Erla Björg forstöðukona