Gærdagurinn, föstudagurinn 22.júlí, var frábær hér á bæ. Eftir hádegismat sem var karrýfiskur, hrísgrjón og salat voru haldnir svokallaðir Ölversleikar þar sem stelpurnar kepptu í alls kyns skrítnum íþróttagreinum. Ölversleikadrottningin verður síðan krýnd síðasta daginn á verðlaunaafhendingunni. Eftir kaffi þar sem þær fengu ljúffeng skinkuhorn og köku var haldin hæfileikakeppni þar sem sýnd voru frábær atriði.  Í kvöldmat var tómatpastasúpa og brauð. Kvöldvakan var í boði stelpnanna í Fjallaveri sem skemmtu með leik og leikritum.
Í lok kvöldvökunnar fengum við óvæntan gest „Effie“ sem skipti stelpunum upp í umdæmi og setti af stað „Hungurleika“. Stelpurnar þurftu að hlaupa út, forðast óhugnarlega,hvíta friðargæsluliða og finna Katniss og Peeta og reyna að koma sér í skjól. Leikurinn tóskt frábærlega og endaði inní kósy kaffihúsi þar sem þær fengu vöfflur og djús. Ró var komin á um miðnætti.
Í dag voru stelpurnar vaktar upp með ljúfu gítarspili og söng. Þær fengu sér morgunmat og komu svo á Biblíulestur. Nú hafa þær nýlokið  við hádegismat. Í dag er veisludagur og framundan er skemmtilegur ratleikur en eftir kaffi verður heitur pottur og punt fyrir veislukvöldmatinn. Foringjarnir munu svo sjá um að skemmta í kvöld með sínum sívinsælu Ölversleikritum 😉
Kærleikskveðjur úr Ölveri Erla Björg