Það voru hressar og flottar stelpur sem komu upp í Ölver í gær og staðurinn tók svo sannarlega vel á móti þeim með logni og 19 stiga hita. Við byrjuðum á að skipta þessum 34 stúlkna hópi niður í 5 herbergi og hjálpuðum þeim að koma sér fyrir. Þetta gekk að sjálfsögðu bara vel. Það fengu allir sem komu saman að vera saman í herbergi en svo var líka gaman að sjá hvað stelpurnar voru jákvæðar og glaðar með að fá að kynnast og eignast nýjar vinkonur.

Eftir að hópurinn hafði komið sér fyrir í herbergjunum var boðið upp á hrært skyr og smurt brauð úr eldhúsinu okkar frábæra. Það er ekki alltaf sem stelpurnar borða vel fyrsta daginn en þessi hópur tók hraustlega til matar síns strax í fyrstu máltíð. Eftir matinn var svo komið að því að kynnast þessum dásamlega stað og foringjahópurinn tók að sér að leiða stelpurnar í gegnum alla skemmtilegu staðina sem leynast hérna innan girðingarinnar. Nú vita allir hvar er hægt að finna rólur og risahengirúm, kofa og aparólu o.s.fv. Það passaði ágætlega að þegar rigningin skall á var komið að því að undirbúa þær fyrir brennómót flokksins með því að fara með þær út í íþróttahús og kenna þeim leikinn. Það var stuð!

Eftir kaffið (hér er alltaf nýbakað með kaffinu sem vekur mikla lukku) voru haldnir íþróttaleikar með fimm íþróttagreinum, svo var boðið upp á perl og annað dundur á meðan tvö herbergi fengu aðstoð við að undirbúa atriði fyrir kvöldvöku.

Kvöldið gekk framar vonum. Þær fengu steiktan fisk og kartöflur í kvöldmat og eftir það var haldin skemmtileg kvöldvaka með fjórum fagmannlegum skemmtiatriðum. Þar sem þessi flokkur er óvenju stuttur ákváðum við að kýla bara á það strax að hafa náttfatapartý. Það var svo sem ekki eftir neinu að bíða! Við tilkynntum þeim því í lok kvöldvökunnar að það væri að byrja partý og allar hlupu þær kátar og glaðar fram og skiptu yfir í náttfötin. Ærslagangurinn var ógurlegur! Ásadans og stoppdans og leikir og sögur og svo ís og kósýheit var það sem boðið var upp á og það voru ánægðar stelpur sem skriðu í bólin sín eftir kvöldið.

Að sjálfsögu, eins og gera má ráð fyrir hjá svona ungum krílum, var eitthvað um heimþrá þegar nóttin fór að nálgast. Hér er frábært lið foringja og aðstoðarforingja sem hafa mikla reynslu af að takast á við tárin og eiga endalaust til af knúsi og klappi fyrir þær sem á þurfa að halda. Svæfingin gekk því vel og voru allar sofnaðar um ellefu leytið og sváfu í alla nótt. Betra verður það ekki!

Ég hlakka til næstu daga. Veðurspáin er góð, staðurinn sá besti í heimi, starfsfólkið í úrvalsflokki og stelpurnar hressar. Þetta getur ekki klikkað!

Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, forstöðukona.