Veðrið hefur leikið við okkur í dag. Eftir hefðbundna morgundagskrá, sem samanstendur af morgunmat og fánahyllingu, tiltekt, biblíulestri og brennókeppni, fóru stelpurnar allar í sundfötin sín og stungu handklæðinu undir hendina og örkuðu niður að á. Hakkið og spaghettíið úr hádegismatnum gaf okkur orku til að fara í leiki á leiðinni og busla svo í ánni eins og enginn væri morgundagurinn. Sumar stungu aðeins tánum í og aðrar bleyttu sig alveg upp að mitti. Allir skemmtu sér vel. Það vildi enginn fara heim aftur þegar komið var að kaffitímanum svo frábæra eldhússtarfsfólkið okkar skutlaði bara kaffitímanum eins og hann lagði sig niður að á. Það var alveg dásamlegt að sitja saman í góða veðrinu og gæða sér á nýbakaðri súkkulaðiköku og kanillengjum.

Þegar heim kom eftir busluferðina var frjáls tími að mestu. Boðið var upp á útiföndur og skotbolta, sumar stelpurnar undirbjuggu atriði fyrir kvöldvökuna og allar voru sendar í  heita pottinn og í sturtu og hrein föt. Grjónagrauturinn fór svo vel ofan í liðið í kvöldmatnum og allir nutu sín vel á hefðbundinni Ölvers kvöldvöku með miklum söng og hvorki meira né minna en sex skemmtiatriðum.

Þetta eru skemmtilegar stelpur. Þær eru duglegar að leika sér bæði úti og inni og jákvæðar gagnvart því sem boðið er upp á, bæði í mat og skemmtun. Það er líka áberandi lítið um uppákomur þeirra í milli þrátt fyrir ungan aldur og við starfsfólkið erum bara að skemmta okkur konunglega í þeirra félagsskap.

Sólarlagið er óendanlega fallegt í Ölveri í kvöld og af veðurspánni má ráða að morgundagurinn verði ekki síðri en dagurinn í dag. Á morgun er jafnframt veisludagur og því verður mikið um að vera fyrir stelpurnar allan daginn, bæði inni og úti. Það er alveg víst að engum á eftir að leiðast!