Í gær var veisla og í dag er heimferðardagur!

Þrátt fyrir talsverðan blástur var gærdagurinn hlýr og fallegur í Ölveri. Stelpurnar voru orðnar alvanar aðstæðum, sváfu flestar mjög vel og voru tilbúnar í slaginn þegar þær vöknuðu. Eftir hefðbundna morgundagskrá og kornflex-húðaða kjúklingaleggi í hádegismat var blásið í hæfileikasýningu. Alls voru um 10 atriði úr hæfileikabanka barnanna sýnd við mjög góðar undirtektir. Við fengum að njóta þess að sjá þær dansa og syngja, segja brandara og gátur og jafnvel sippa.

Þegar sýningunni lauk kom í ljós að einhver hafði stolið hveitinu sem átti að fara í kökuna með kaffinu!!! Nú voru góð ráð dýr! Stelpurnar þurftu að fara niður í matsal og föndra sér vegabréf til að fá fyrstu vísbendingu í stóra hveitimálinu og fá að leggja af stað í leitina að hveitiþjófinum. Hvert herbergi fyrir sig ferðaðist svo þvers og kruss um Ölvers-svæðið og hitti fyrir ýmsar fígúrur og leysti út vísbendingar í hveitimálinu með ýmsum verkefnum. Á vegi þeirra varð m.a. norn og prinsessa, trúður og vélmenni. Svo fór að öll herbergin fundu hveitipoka og kaffitímanum var bjargað!! Bananakakan og lummurnar runnu ljúflega niður og þannig fór allt vel að lokum. 🙂

Eftir kaffi fóru allar stelpur í pottinn og fóru í spariföt. Foringjarnir fléttuðu hár eins og þær ættu lífið að leysa og annars fór tíminn í frjálsan leik. Veislan hófst með pizzum og lifandi tónlist í kvöldmatnum og hélt svo áfram með dans og leik uppi í sal þar til kvöldvakan hófst. Foringjarnir sáu um leikrit kvöldsins og stelpurnar veltust um af hlátri eins og búast mátti við.

Í dag er heimferðardagur. Farangurinn er kominn út á tröppur, foringjarnir búnir að spila við sigurliðið í brennókeppninni, hádegismaturinn að byrja og óskilamunaauglýsingarnar fara að hefjast. Eftir kaffi er ekkert eftir nema lokastund með verðlaunaafhendingu og svo heimför. Það hefur verið gaman að hafa þennan hóp. Við starfsfólkið erum þakklát fyrir að hafa verið treyst fyrir þessum flottu stelpum og fengið að búa til fallegar og góðar minningar með þeim. Sjálf er ég alltaf jafn þakklát fyrir að fá að vera á þessum frábæra stað. Hér er starfsfólkið alltaf fyrsta flokks, maturinn góður, umhverfið fallegt og andinn sem hér ríkir óviðjafnanlegur.

Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, forstöðukona.