Ölver tók á móti okkur með skínandi sólskini og sinni einstöku náttúrufegurð að vanda 🙂

Stelpurnar voru duglegar að koma sér fyrir og vel gekk að raða í herbergin. Eftir hádegismatinn, ljúfenga jarðaberjasúrmjólk með brauði og áleggi,  var farið í ratleik þar sem stelpurnar leystu allskyns þrautir sem hjálpuðu þeim að kynnast betur. Við nýttum góða veðrið á ýmsan máta, Jóhanna Elísa stýrði dansi á veröndinni, farið var í leiki í lautinni og svo drukkum við kaffið niðri í laut líka við mikinn fögnuð. Hópnum var skipt í brennólið og eftir að búið var að kenna þeim leikinn spiluðu þær af mikilli  snilld. Eftir þetta var þeim hóað saman í matsalinn þar sem þær föndruðu forsíðu á dagbók sem þær ætla að halda út vikuna, mikil listaverk fæddust á þessari góðu stund og glimmer flaug hér um öll borð og gólf 🙂 Í dagbókina skrifa þær svo á hverju kvöldi eitthvað sem staðið hefur uppúr frá deginum. Í kvöldmat fengu þær dýrindis fisk sem all flestar kunnu vel að meta. Kvöldvakan var á sínum stað og foringjarnir héldu uppi miklu stuði eins og venjulega. Að lokum fóru bænakonurnar í létt gervi og stelpurnar fundu út hvaða bænakona tilheyrði hverju herbergi. Allar voru þreyttar en sælar og gekk ljómandi vel að koma öllum í ró.

Í morgun voru stelpurnar vaktar í rólegheitum og við byrjuðum á léttri morgunleikfimi í Qigong stíl þar sem við einblíndum á öndun og hvernig við vekjum líkamann blíðlega og fyllum hann af orku fyrir daginn. Eftir morgunmatinn skiptum við hópnum í tvennt og fórum í fyrstu lotuna. Þar leyfðum við stelpunum að rannsaka spurninguna: Hvað eru samskipti? Lang flestar tóku þátt og höfðu ríka skoðun á því hvað skiptir máli í samskiptum. Niðurstaðan var dásamleg, þær velja allar góð samskipti að leiðarljósi sem innihalda eftirfarandi; Komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig, ást, að hlusta vel á aðra, samvinna, hrós, traust, virðing, vinátta, jákvæð og uppbyggileg líkamstjáning og gleði.

Fleiri fréttir á morgun….