Héðan er allt yndislegt að frétta. Dagurinn í gær var sólríkur og fallegur. Eftir hádegismat sem var grænmetisbuff, cous cous og salat var farið niður að á að busla og njóta og nokkrar stelpur tíndu töluvert að krækiberjum í leiðinni. Næst var haldið í kaffi sem var heimabakað og gómsætt og rann það ljúft niður. Eftir kaffitímann fóru tvö herbergi og æfðu leikrit fyrir kvöldið en síðan fóru flestar stúlkurnar í heita pottinn.
Í kvöldmatinn var grjónagrautur og brauð með áleggi. Eftir matinn var kvöldvaka þar sem var mikið sungið og horft var á leikrit og tekið þátt í leikjum. Eftir að hafa sungið nokkur róleg lög fengu þær að heyra söguna „Þú ert frábær“ en við munum halda áfram að vinna út frá henni í vikunni. Þá var kvöldkaffi og síðan fóru allar stelpurnar inná herbergin sín og skrifuðu í dagbókina sína og áttu góða stund með bænakonunni sinni.
Í dag vöknuðu stelpurnar og fóru í morgunleikfimi og borðuð svo morgunmat. Þá var fánahylling og tiltekt og svo var blásið til morgunstundar. Þar skiptum við hópnum í tvo hópa, eldri og yngri, og skoðuðum orðið sjálfstraust og hvað í því felst að vera með gott sjálfstraust. Eftir stundina var farið í brennó og nú voru þær að ljúka við hádegismatinn.
Fleiri fréttir munu berast á morgun.
Kærleikskveðjur frá okkur