Það er aldeilis hvað veðrið ætlar að leika við okkur hér í Ölveri. Dásamlegt veður á hverjum degi.
Eftir allt fjörið sem hefur verið síðustu daga var komin smá þreyta í stúlkurnar svo við ákváðum að hafa gærdaginn bara notalegan. Eftir að stúlkurnar höfðu gætt sér á pastasalati og hvítlauksbrauði skiptum við hópnum í tvennt eftir aldri. Eldri stelpurnar byrjuðu í dekurstund með slökun, nuddi, gúrkum og öllu tilheyrandi. Á meðan tóku yngri stelpurnar þátt í skapandi málningarstund. Þar máluðu þær allar í þögn mynd um það hvernig þeim leið á þeirri stundu. Það var ótrúlegt að sjá listaverkin fæðast hjá hverri og einni. Eftir kaffitímann skiptu svo hóparnir um verkefni og fóru þá eldri stelpurnar í málningarvinnuna og þær yngri í dekur.
Í kvöldmatinn voru kjúklingaleggir, kartöflubátar, hrásalat og kokteilsósa og voru stelpurnar duglegar að borða.
Kvöldvakan var ekki af verri endanum en þar sáu stelpurnar í Fjallaveri og Fuglaveri um skemmtunina, sýndu leikrit og sáu um leik. Eftir kvöldkaffi var haldin málverkasýning þar sem stelpurnar gátu skoðað verk hver annarrar og tekin var hópmynd af listakonunum. Kvöldið endaði svo á skemmtilegu náttfatapartýi þar sem dansað var fram eftir kvöldi.
Eftir rólega morgunleikfimi og morgunmat tók morgunstundin við. Þar fjölluðum við um sjálfsvirðingu og að elska okkur sjálfar Eldri hópur tók þátt í gagnræðum þar sem dásamleg viska kom frá hverri og einni. Yngri hópurinn föndraði stjörnur sem þær fylltu með fallegum og uppbyggilegum orðum um sig sjálfar.
Við ætlum að nýta daginn í dag vel með þessum frábæru stelpum enda alveg dásamlegt veður sem bíður okkar.
Bestu kveðjur úr Ölveri