Það er aldeilis búið að vera mikið um að vera hjá okkur í fókusflokki. Í gærmorgun fóru eldri stúlkurnar upp í sal þar sem þær fengu að kynnast ekta gagnræðum en það er einstakt samtalsform sem byggist á að setja fókusinn inná við og tala út frá hjartanu. Við rannsökuðum spurninguna „hvernig er ég þegar ég elska mig?“ og komu dásamlega fallegar setningar frá þeim.  Lærdómurinn var að því meira sem ég elska mig því meiri kærleik hef ég að gefa til annarra. Yngri stelpurnar fóru í svipaða vinnu en þær útbjuggu stjörnu handa sér þar sem þær skrifuðu fallegar setningar til sín. Þær lærðu að við þurfum ekki að vera háðar viðurkenningu frá öðrum heldur skiptir mestu máli að við hugsum vel um okkur og til okkar sjálfra.

Eftir hádegi sem var skyr og ber var haldin tísku-, förðunar og hárgreiðslusýning þar sem þemað var náttúran. Afraksturinn var hreint frábær eins og sjá má á myndunum. Við höfum haldið keppnum í lágmarki í þessari viku þar sem markmiðið er að kenna þeim að lífið er ekki keppni heldur eigum við aðeins að keppa við okkur sjálfar og vera bestar í því að vera við 😉

Eftir kaffitímann þar sem þær fengu nýbökuð horn og súkkulaðiköku fóru yngri stelpurnar út í vatnsstríð og leiki en þær eldri föndruðu stjörnur handa sér. Þær munu svo taka þær heim með sér ásamt dagbókinni sinni og málverkunum. Þá var val um að fara í pottinn en veðrið lék enn og aftur við okkur.

Í kvöldmatinn var lasagne og hvítlauksbrauð og eftir matinn var haldin frábær kvöldvaka í boði stelpnanna í Hamraveri. Mikið var sungið og síðan sagði einn foringinn okkur frá því hvernig hún lærði að taka Pollýönnu til fyrirmyndar í líf sínu og hvað það hefur hjálpað henni í gegnum lífið. Við höfum verið að taka mjög mikið á jákvæðni og þakklæti í vikunni og var þetta frábært innlegg í þá vinnu.

Um kvöldið upplifðu þær svokallaða „Lífsgöngu“ sem erftitt er að útskýra í orðum og allir upplifa á sinn hátt en vonandi segja þær ykkur frá því þegar heim er komið. Hún tókst einstaklega vel og endaði inní kósýkvöldkaffi þar sem þær fengu heitt kakó og lummur.

Þær fóru að sofa um kl.01 örþreyttar en sælar.

Í dag er veisludagur sem er með hefðbundnu sniði. Þær fengu að sofa klukkutíma lengu í morgun enda veitti ekki af, borðuðu morgunmat, fóru í brennó og borðuðu hádegisverð. Í dag unnu þær svo verkefni þar sem þær skrifuðu eitthvað fallegt til hver annarrar og fá þær það með sér heim en einnig viðurkenningaskjal fyrir þátttöku í þessum einstaka flokki.

Eftir kaffitímann var svo pottur og punt og nú sitja sælar stúlkur og borða hamborgara og franskar inní matsal. Á dagskrá er svo kvöldvaka í boði foringjanna þar sem við munum töfra fram hvert leikritið af fætur öðru 😉

Fleiri fréttir berast svo á heimfarardegi á morgun.

Kærleikskveðja frá okkur héðan úr faðmi fjallanna