Mikið fjör er búið að vera í húsinu síðustu tvo daga en Ölversleikarnir fóru fram á þriðjudaginn. Þar var keppt í hinum ýmsu greinum bæði hefðbundnum og óhefðbundnum til að mynda breiðasta brosinu, Einari könguló, stígvélasparki, hanaslag, sjómann og kjötbollukasti. Eftir leikana var stelpunum stillt upp fyrir hópmyndatöku þar sem foringjar flokksins komu hópnum á óvart með litadufti (ColorRun) og í framhaldi var athugað hversu margar Ölversstelpur kæmust í heita pottinn í einu.

Eftir kvöldvöku á þriðjudaginn var svo kósíkvöld þar sem stelpurnar horfðu allar saman á mynd og fengu kvöldsnarl og smá popp yfir myndinni.

Í gær var svo hefbundinn dagur framan af, morgunstund, brennó og gönguferð niður að á en í kaffinu birtust svo skrítnar verur. Um var að ræða hvítverja og furðufugla þar sem Hungurleikar Ölvers voru í þann mund að hefjast. Í leikunum reyndi á samvinnu stelpnanna í flokknum þar sem þær þurftu að hjálpast að við að komast allar saman á leiðarenda, en ýmsar hindranir urðu á leiðinni sem þær gátu aðeins unnið úr með því að vinna allar saman.

Á kvöldvökunni birtust einnig þrír skrítnir karlar, sem þó líktust foringjunum óvenjumikið. Þeir sungu fyrir stelpurnar og buðu flokknum svo í framhaldi með sér út í smá útilegustemningu þar sem spilað var á gítar og grillaðir sykurpúðar. Þegar upp í hús var komið höfðu eldhús-stúlkurnar breytt matsalnum í hið huggulegasta kaffihús og buðu stelpunum upp á heitt kakó og vöfflur.

Flokkurinn var líkt og áður fljótur að komast í ró þegar búið var að bursta og pissa.

Myndir frá degi 3 og 4 eru komnar inn á netið – sjáðu hvað það er gaman hjá okkur!

-Starfsfólk Ölvers

 

Dagur 3

Hádegismatur: Tómatpasta og salat
Kaffi: Brauðbollur, jógúrtkaka og CornFlakeskökur
Kvöldmatur: Kjúklingaleggir og kartöflubátar
Kvöldkaffi: Videokvöld (bananar og popp)

Dagur 4
Hádegismatur: Hakk og spagetti
Kaffi: Kanilsnúðar og súkkulaðikaka
Kvöldmatur: Regnbogaskyr og brauð
Kvöldkaffi: Kaffihúsakvöld (heitt kakó og vöfflur)