Dagur 1 og 2

Þegar hressar og kátar stúlkur voru búnar að koma sér fyrir í verunum sínum fengum við bakaðan fisk í hádegismat. Þrátt fyrir rigningu og rok var gaman að fara út í ævintýraferð um svæðið og í leiki. Þegar við komum inn biðu okkar kanelsnúðar og nýbakað bananabrauð sem rann ljúflega niður. Eftir kaffi var skotbolti í íþróttahúsinu, listasmiðja og hópleikir í kvöldvökusalnum. Á kvöldvöku var mikið stuð, sungið af krafti og sögð saga. Hlíðarver var með leiki sem slógu algjörlega í gegn, það var mikið hlegið. Það voru þreyttar stúlkur sem lögðust á koddann sinn. Sumar örlítið óöruggar á nýjum stað en allar stóðu sig vel enda með bænakonurnar inní herbergjunum sem lásu og báðu með þeim og fóru ekki fram fyrr en allar voru sofnaðar.

Á morgunstund heyrðum við um Sr. Friðrik sem stofnaði KFUM og KFUK á Íslandi og um Kristrúnu sem kom Ölveri á laggirnar. Þetta fannst stúlkunum mjög áhugavert og það vöknuðu margar spurningar. Við heyrðum líka sögu um Jesú og sungum mikið, enda eru bjartar og fallegar raddir í þessum flokki. Brennókeppnin fór svo á stað fyrir hádegismat en það var hakk og spagettí í matinn. Eftir mat var mjög subbulegt en skemmtilegt föndur. Svo var andlistmáling og skógarleikur sem gekk útá að finna nokkrar skógarverur og leysa nokkrar þrautir. Allir fengu svo sykurpúða að launum. Nú eru stúlkurnar í sturtu og í heitapottinum. Í kvöld verður kvöldvakan á sínum stað og svo verður náttfatapartý (en það vita þær ekki ennþá). Það er mikill spenningur fyrir leynigestinum sem kemur á morgun…en meira um það á morgun!

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157682441260943