Náttfatapartýið í gær kom stelpunum skemmtilega á óvart. Það var dansað af mikilli innlifun og sungið hárri raustu, horft á leikrit og borðað popp. Sumum fannst nóg um og undu sér betur við að perla í ró og næði inní matsal, svona erum við nú ólík. Allir voru samt glaðir með kvöldið og þær voru fljótar að sofna. Eftir morgunmat, fánahyllingu, morgunstund og brennókeppni fengum við fiskibollur í matinn. Þá var komið að leynigestinum en það skrýtna var þegar við mættum uppí íþróttahús að þá voru þar tveir leynigestir, Jack Sparrow og Björgvin Franz. Það kom nú fljótt í ljós að Jack var eitthvað að villast en stelpurnar ákváðu að leifa honum samt að vera með. Björgvin Franz fór í gegnum það með okkur hvað það væri að vera leikari og kenndi okkur fullt af flottum leikjum og æfingum. Það var frábært að sjá stelpurnar sýna alltaf meiri og meiri áræðni. Það var ekki nóg með að við lærðum að vera leikarar heldur lærðum við líka að vera töframenn. Stelpurnar voru svo flínkar að láta penninga hverfa og kúlur skoppa uppúr ótrúlegustu stöðum að forstöðukonan gapti af undrun. Eftir kaffitíma gerðum við origami og allskonar föndur og fórum í útileiki því sólin lét aðeins sjá sig. Á kvöldvöku voru Fjallaver og Fuglaver með leiki og leikrit sem heppnaðist mjög vel. Á morgun er síðasti venjulegi dagurinn hjá okkur því á laugardag er veisludagur og svo er það bara heimferðardagur. Merkilegt hvað þetta líður alltaf hratt.
Hér eru nokkrar nýjar myndir.
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/34664521193/in/album-72157682441260943/