Öfugur dagur….. já það var sko öfugur dagur í Ölver í dag, þannig að bænakonurnar fóru inn á sín herbergi og búðu stúlkunum góða nótt (í stað góðs dags) og hvöttu þær til þess að fara að drífa sig í svefn. Sumar stúlknanna voru alveg ringlaðar og skildu ekkert hvað var í gangi, enda ný vaknaðar og allir starfsmenn sumarbúðanna í fötunum á röngunni.  Þegar stúlkurnar voru vaknaðar og aðeins farnar að átta sig á hvað væri í gangi voru þónokkrar sem ákváðu að taka öfuga daginn líka alla leið og klæddu sig í fötin á röngunni og sátu meira að segja í stólnum á öfugt.

Þegar þær komu fram var byrjað var á því að bjóða upp á kvöldhressingu, ávexti og brauð.

Að henni lokinni var farið upp í kvöldvökusal, þar sem var slegið upp skemmtilegri kvöldvöku, Hamraver sá um að skemmta lýðnum og fluttu leikrit og stjórnuðu leik. Svo hlustuðu stelpurnar á hugleiðingu og sungu kvöldsönginn.  Í kvöldmat var boðið upp á lasagna og salat. Eftir matinn þökkuðu stelpurnar síðan öfugt fyrir matinn. „góður var hann, matinn fyrir takk“.

Farið var í allskonar boltaleiki inní íþróttahúsinu ásamt hinum skemmtilega klósettleik áður en farið var beint inní kaffi þar sem þær gæddu sér á sjónvarpskökum og brauðbollum en allt var mjög leynilegt og urðu þær að hlaupa beint inní matsal. Því vissu stelpurnar ekki að það væri búið að breyta herbergjunum þeirra í ævintýralönd.

Í gær átti ein stúlkan í flokknum 11 ára afmæli og því var sungin afmælissöngur fyrir hana og hún fékk sérskreytta köku af því tilefni.

Beint eftir kaffi var farið í ævintýragang, þar sem stelpurnar þurftu að búa til vegabréf til að fá inngöngu inn í þann heim. Stelpurnar gengu í hópum með bundið fyrir augun á milli ævintýranna þar sem þær hittu norn, sjóræningja, trúð og Þyrnirós.

Eftir ævintýraganginn fengu nokkur herbergi að fara í pottinn á meðan hinar léku sér frjálst fram að hádegismat en þá var boðið upp á skyr og brauð. Að því loknu var brennókeppninni haldið áfram. Síðan héldu stelpurnar upp á biblíulestur og fengu þær aðra hugleiðingu og sungu lög. Eftir biblíulesturinn fengu þær tíma til að taka til í herbergjunum sínum eins og gert er alla morgna og fóru síðan út að hylla fánann og syngja fánasönginn. Eftir söng og hyllingu var blásið í morgunmat sem vakti mikla lukku enda þekkja allir lagið „súrmjólk í hádeginu og seríos á kvöldin“.

Eftir þennan annarsama og öfugsnúna dag fóru allar þreyttar og smá ruglaðar en þó mest sáttar að sofa eða þó þess heldur að vakna.

Kveðja starfsfólk Ölvers

 

Komnar eru inn myndir frá gærdeginum

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157685735360216/