Eftir frekar ruglingslegan öfugan dag á fimmtudag, vöknuðu stúlkurnar úthvíldar í gær og tilbúnar í slaginn.

Eftir morgunmat, fánahyllingu, biblíulestur og brennó, fengu þær grjónagraut og brauð í hádegismatinn. Settur var á stað leynivinaleikur sem stendur fram á sunnudag og eru stelpurnar alveg á fullu að útbúa fallegar gjafir eða bréf fyrir leynivin sinn, og um allt hús eru stúlkur að laumupúkast til að ekkert komist upp :o)

Tilkynnt var í matartímanum að á veisludegi yrði hæfileikakeppni og þær hvattar til að taka þátt.  Eins fengu þær að vita að farið yrði í óvissuferð og þær skildu pakka niður, regnfötum, hlýjum fötum og sundfötum – þar sem óvist væri hvort farið yrði á ströndina, hvort kæmi rigning eða haldið til fjalla.

Rétt eftir hádegi renndi í hlaðið rúta sem keyrði með stelpurnar í Vatnaskóg.  Sumar þeirra var farið að gruna hvert skildi haldið en þær pössuðu að láta þær sem ekkert grunaði, ekki vita.  Í Vatnaskógi fengu þær smá göngutúr og kynningu á svæðinu, og eins fengu þær að fara út á bát á vatninu.

Kaffið sem ráðskona flokksins og bakari höfðu undirbúið, var borðað í Skóginum og  fengu þær risakanilsnúða og jógúrtköku.  Þegar allar höfðu klárað var haldið aftur út í rútu og var nú haldið í sund á Hlöðum.  Þar skemmtu þær sér konunglega og mikið var hlegið og sprellað.

Það voru dasaðar stúlkur og rjóðar í kinnum eftir útiveru og sundferð , sem komu upp í Ölver, rétt fyrir kvöldmat.  Gæddu þær sér á fiskibollum og kartöflum.

Á kvöldvökunni var það Hlíðaver sem sá um skemmtiatriði kvöldsins.  Þegar henni lauk fóru stelepurnar strax inn í herbergin sín, háttuðu sig og þær sem vildu sóttu sængurnar/svefnpokana sína – því nú var slegði upp bíókvöldi.  Horfðu þær á Mulan og fengu popp.

Rétt fyrir miðnætti fóru allar að klára að græja sig fyrir nóttina og kom bænakonan þeirra inn á herbergið til að koma þeim í ró, sem tók ekki langan tíma.

Í dag er svo veisludagur, vonandi komast flestar í pottinn og svo verður einnig hin sívinsæla og æsispennandi hæfileikakeppni, þannig að það stendur mikið til.  Hlökkum til dagsins með flottu stúlkunum sem eru hér í flokknum.  Þið kæru foreldrar/forráðamenn megið vera ótrúlega stolt af þessum kurteisu og flottu stelpum sem þið eigið – þær eru til fyrimyndar.

Hvet ykkur til að skoða myndir frá gærdeginum og því sem brallað var.

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/collections/72157629303374661/

Brynja Vigdís
Forstöðukona