Hingað í Ölver komu 45 hressar stelpur í gær. Þær voru misspenntar, margar að koma í fyrsta skipti og kannski alveg vissar um hverju þær áttu von á. Ég held við getum fullyrt að enginn hafi orðið fyrir vonbrigðum.
Fyrsta verkefnið eftir rútuferðina uppeftir var að skipta öllum í herbergi. Það gekk vel, allar vinkonur fengu að vera saman og öll herbergi full. Eftir að eldhúsið hafði boðið upp á gæða grænmetisbuff, salat og kúskús var svo farið í kynningargönguferð um svæðið. Stelpurnar fengu að kynnast henni Dísu okkar í fjallinu (tröllkonan sem sjá má úr klettunum á toppnum), heimsins stærsta hengirúmi, aparólunni, íþróttavellinum, dúkkukofunum og lautinni og öllum hinum skemmtilegu leikstöðvunum á þessum fallega stað. Veðrið lék auðvitað við okkur allan daginn og því ekki erfitt að gleðja stelpurnar og þær fljótar að gleyma sér í leik á hverjum stað.
Eftir kaffitímann fóru svo allar sem vildu í heitapottinn, íþróttakeppni Ölvers fór af stað með tveimur íþróttagreinum (stígvélaspark og köngulóarhlaup) og Fuglaver og Skógarver fengu aðstoð foringja við að undirbúa skemmtiatriði fyrir kvöldvöku.
Stelpurnar fengu grjónagraut í kvöldmatinn. Við ákváðum svo að nota þetta fallega sumarkvöld sem við fengum og eftir kvöldvökuna voru allar stelpurnar plataðar út í að týna rusl í skóginum. Þessi ruslatýnsla varð auðvitað að engu, enda ekkert rusl í skóginum í Ölveri. Hins vegar fundu þær tvo foringja sem voru búnir að dulbúa sig sem risa-sykurpúðar og heit kol í hjólbörum niðri við aparólu. Allir fengu þrjá sykurpúða á teini til að grilla og við áttum skemmtilega ævintýrastund í kvöldsólinni fyrir svefninn.
Hvert herbergi fékk bænakonu inn til sín til að lesa fyrir þær og aðstoða þær við að róa sig fyrir svefninn. Hér er mikið af nýjum stelpum og það var því við því að búast að heimþráin bankaði upp á á einhverjum koddum. Foringjaliðið hér þessa vikuna er með eindæmum reynslumikið og frábært og átti í engum vandræðum með að hugga og hughreysta, enda vitum við að þegar þær vakna að morgni, spenntar fyrir verkefnum dagsins, er reglan sú að öll heimþrá er farin út í veður og vind.
Í dag er fallegur dagur og margt spennandi framundan. Við setjum inn fréttir af því öllu saman á morgun.