Já, það var svo sannarlega margt spennandi gert í gær. Veðrið var dásamlegt! Svo gott að einhverjir foringjanna mundu ekki eftir viðlíka degi á staðnum. Við nýttum þetta veður í botn!
Stelpurnar höfðu sofið vel og voru vaktar klukkan níu, allar tilbúnar að byrja daginn! Eftir morgunmat og fánahyllingu var farið í að taka til í herbergjunum, enda hegðunar og snyrtimennskukeppni herbergjanna í fullum gangi og stjörnugjöf framundan. Fljótlega eftir tiltekt var svo blásið í morgunstund þar sem stelpurnar fræddust um Biblíuna, efni hennar og erindi við okkur. Þar var líka farið í leiki og sungnir Ölverssöngvar við góðar undirtektir.
Í hverjum flokki í Ölveri er hópnum skipt í lið og haldin brennókeppni en það vita það kannski ekki allir að brennó er þjóðaríþrótt Ölvers! Því var haldið út í íþróttahús eftir morgunstund og þrír leikir spilaðir í brennómóti 6. flokks 2017. Þar var mikið stuð.
Eftir hádegismatinn skunduðum við svo allar niður að á með handklæði, sundföt og sólarvörn og þar var buslað og brasað, legið og hlegið og margt brallað fram að kaffi. Það tímdi náttúrulega enginn að fara inn í kaffi svo að þegar við komum heim fengum við kaffitímann sendan niður í laut og héldum þar lúxus lautarferð með nýbökuðu bananabrauði og jógúrtskúffuköku, ávöxtum og djús. Og Zumbakennslu! (Kíkið endilega á myndbandið á síðu Ölvers á Facebook).
Eftir kaffi var hefðbundin dagskrá og mikil útivera. Potturinn var í boði fyrir þær sem vildu, allir tóku þátt í íþróttagreinum dagsins (broskeppni, sippukeppni og tímaskynjunarkeppni) og Hamraver og Lindarver undirbjuggu skemmtiatriði kvöldsins. – Á kvöldvöku var svo mikið hlegið, enda skemmtiatriðin alveg frábær, og í lokinn lærðu stelpurnar um mikilvægi þess að vera þakklátur fyrir gjafir lífsins.
Heimþrá er að mestu farin lönd og leið og stelpurnar farnar að mynda ný og góð vináttutengsl, bæði í herbergjunum og á milli herbergja. Þetta er frábær hópur og við hlökkum til næstu daga með nýjum áskorunum og ævintýrum.
Dagurinn í dag er rigningadagur en hér leiðist sko engum þrátt fyrir það! Meira um það á morgun.