Eins og kom fram í gær var veðrið í gær ekki alveg eins fallegt og dagana á undan. Eða eiginlega bara langt því frá. Haldiði að það hafi eitthvað skemmt fyrir gleðinni? Nei, aldeilis ekki

Við byrjuðum daginn, eins og alla aðra daga, á morgunmat, tiltekt og svo morgunstund. Á morgunstundinni var fjallað um hvernig Jesús notaði dæmisögur til kennslu. Stelpurnar lærðu dæmisöguna um miskunnsama samverjann og hvernig við eigum að líta á alla menn sem náunga okkar og sýna þeim kærleik. Við sýndum þeim stutta og skemmtilega teiknimynd þar sem sagan er túlkuð á lifandi hátt. Myndbandið má sjá hér. Eftir morgunstund var svo haldið áfram með brennókeppnina.

Þar sem veðrið bauð ekki upp á mikla útiveru settum við á fót hárgreiðslustúdíó í kvöldvökusalnum og stelpurnar fengu að skrá sig í hárgreiðslukeppni. Á meðan þær sem tóku þátt dunduðu sér við að gera greiðslur í vinkonur sínar horfðum við á teiknimyndina Skýjað með kjötbollum á köflum og buðum upp á popp og vatn. Þetta var mjög notaleg stund í rigningunni og rokinu og spennandi að fá að hafa bíó í kvöldvökusalnum.

Eftir kaffið (nýbakaðar bollur og súkkulaðikaka) var hefðbundin dagskrá í boði. Stelpurnar kepptu í jötunfötu, sem er ein af Ölvers-íþróttagreinunum, og langflestar skelltu sér í pottinn með herbergisfélögum sínum. Það var líka gaman að sjá hversu margar völdu að klæða sig vel og skella sér aðeins út í rigninguna því það er sko margt hægt að gera í Ölveri þó það sé aðeins blaut. Í kvöldmat fengu börnin kjúklingaleggi og kartöflubáta og eftir það var haldin fjörug og skemmtileg kvöldvaka þar sem Fjallaver og Hlíðarver fóru á kostum í skemmtiatriðunum sem þær höfðu undirbúið. Stelpurnar hafa verið duglegar að læra Ölverslögin og taka vel undir og mjög gaman að eiga þessar stundir með þeim. Gríma, foringi, las svo fyrir þær söguna Þú ert frábær, sem fjallar um hversu mikilvægt það er að merkja ekki fólk, eða dæma, því öll erum við jöfn í augum Guðs. Þá skiptir engu hvað öðrum finnst um okkur því við vitum að við erum fullkomin alveg eins og við erum. Stelpurnar fengu svo ávexti fyrir svefninn sofnuðu vel eftir skemmtilegan dag.

Í dag er veðrið aðeins skárra. Stefnan er tekin á útiveru og hæfileikakeppni og fleira skemmtilegt og svo er auðvitað veislukvöldið í kvöld! Það verður gaman!

Endilega verið dugleg að fylgjast með myndum úr flokknum. Það koma nýjar myndir daglega inn á þessa slóð.