Það voru þreyttar og sælar stelpur sem voru sóttar í sumarbúðirnar í Ölveri í dag. Dagurinn í gær var alveg frábær. Við starfsfólkið voru mjög meðvituð um að þessi flokkur væri ekki sérstaklega langur og við settum allt í að reyna að leyfa börnunum að upplifa eins mikið af hefðbundinni Ölversskemmtun og hægt var þrátt fyrir að dagarnir væru ekki margir.

Dagskráin fyrir hádegi var eins og venjulega. Á morgunstundinni heyrðum við söguna um týnda sauðinn og fórum aðeins yfir mikilvægi hverrar og einnar okkar og hvernig Guð fagnar yfir hverjum einasta einstaklingi sem fylgir honum. Eftir morgunstundina var svo brennókeppnin kláruð og fengu svo stúlkurnar fiskibollur og hrísgrjón í hádegismatinn.

Dagskráin eftir hádegismat var hæfileikakeppni þar sem dómararnir voru Justin nokkur Bieper, Sara Larsson og ítalinn Filippo Berio. J – Ungarnir sýndu mikla hæfileika og það var erfitt að velja eitt atriði sem skaraði framúr.

Í kaffitímanum kom í ljós að Justin Bieper hafði ekki skilað sér heim og niðurstaðan var að hann væri líklegast týndur út í skógi. Stelpurnar fóru því allar af stað að leita að honum. Þegar hann var loksins fundinn var kominn tími til að fara í pottinn, græja hárgreiðslu og spariföt og undirbúa sig fyrir veislukvöldið.

Pizzur í aðalrétt og rice krispies kökur í eftirrétt, grátfyndin foringjaleikrit og meira en lítið fjörugri kvöldvöku og dálítil ringulreið en mikil gleði er hefðbundið veislukvöld í Ölveri. Í þetta skipti bættum við um betur og þegar allar skotturnar voru loksins háttaðar og komnar upp í rúm og tilbúnar að fara að sofa eftir fjörugt kvöld voru þær dregnar fram úr aftur í heljarinnar náttfatapartý í matsalnum. Þær fóru því ekki að sofa fyrr en eftir despacito-zumba, ásadans, aðeins meiri foringjaleikrit, skemmtisögu og notalega ísstund. Mikið var gaman að sjá þær leggjast brosandi og sælar á koddann sinn. Svolítið seint – en það kemur kannski ekki að sök þegar maður er á leið heim í rólegheitin næsta dag.

Brottfarardagur gekk svo ljómandi vel. Við héldum síðustu morgunstundina og lærðum um mikilvægi þess að byggja líf sitt á traustum grunni og boðskap kærleika, umhyggju og gleði. Eftir morgunstundina var loksins komið að því að sigurliðið í brennó fékk að keppa við landsliðið í brennó (en það köllum við foringjana okkar enda fáir jafn þrautþjálfaðir brennóspilarar og þær). Eftir foringjabrennóinn var lítið eftir annað en að gúffa í sig pylsum og klára að pakka, afhenda verðlaun og fara einu sinni enn yfir helstu Ölverslögin. Hvert herbergi fékk svo góða kveðjustund með sinni bænakonu áður en haldið var af stað út í rútu.

Eins og alltaf voru forréttindi og heiður að vera treyst fyrir þessum litlu stúlkum. Þær voru eins misjafnar og þær voru margar en allar óendanlega dýrmætar. Foringjaliðið var samsett af eintómum stjörnum með áralanga reynslu úr sumarbúðastarfi og allar áskoranir því tæklaðar af mikilli fagmennsku en einnig ástríðu fyrir starfinu og vitneskju um ábyrgð okkar á að gefa öllum stelpunum jákvæða upplifun af dvölinni í sumarbúðunum. Ég trúi því að við höfum sent heim í dag örlítið sterkari einstaklinga en við fengum í byrjun vikunnar. Vonandi sjáum við þær allar aftur næsta sumar!