Ölver tók glimrandi vel á móti okkur með skínandi sól og einstakri náttúrufegurð 😊
Mjög vel gekk að raða stúlkunum niður á herbergi þar sem þær voru þegar byrjaðar að kynnast og tengjast í rútunni. Eftir að hafa gætt sér á ljúffengu bleiku skyri og meððí var farið í skemmtilega nafna- og hópeflisleiki og í kjölfarið var hópnum skipt í tvennt þar sem annar helmingurinn föndraði dagbækur en hinn nýtti góða veðrið í leikjum og svo var skipt. Mikil listaverk fæddust í föndrinu en þær munu skrifa upplifun sína af hverjum degi í bækurnar að kvöldi. Í kvöldmat fengu þær svo fisk í karrý, sem er mjög vinsæll réttur úr töfraeldhúsinu í Ölveri og nutu þær að sjálfsögðu vel, langflestar 😊. Á kvöldvökunni var auðvitað mikið sungið þar sem foringjarnir héldu uppi miklu stuði að vanda og greinilegt að hér er um kátar og kraftmiklar stelpur að ræða því þakið ætlaði hreinlega af húsinu svo mikið var fjörið 😊
Að lokum fóru bænakonurnar í skemmtileg gervi og földu sig úti en stelpurnar fundu síðan út hvaða bænakona tilheyrði hverju herbergi. Allar voru þreyttar og sælar eftir vel heppnaðan og ánægjulegan dag og það gekk ljómandi vel að koma öllum í ró.
Í morgun voru þær vaktar í rólegheitum og fengu ljúffengan hafragraut, kornfleks og súrmjólk í morgunmat. Eftir fánahyllingu og Biblíulestur var farið út í góða veðrið og Messíana og Kristrún stýrðu hressum dansi niðri í laut og þar sem veðrið var með besta móti eyddu við honum að mestu úti og grilluðum pylsur í hádeginu og borðuðum úti, Jibbý!!! 😀
Eftir hádegi nutum við veðurblíðunnar við ána. Þar var synt, buslað með tánum og legið í grasinu. Það voru svangar stelpur sem komu til baka úr útiverunni við ána og þar sem það er afmælisbarn í hópnum voru nýbakaðar brauðbollur og kaka í kaffitímanum. Við sungum afmælissöng fyrir hana Anítu sem er 10 ára í dag. Í samverustund eftir kaffi fórum við í skemmtilegt ferðalag til plánetunnar Mars þar sem við þurftum að sækja mikilvægt efni til að bjarga mannkyninu og í leiðinni sögðum við frá jákvæðum eiginleikum í fari okkar.
Í kvöldmat var hin sívinsæla kakósúpa með kornflexi að hætti matráða Ölvers og fannst sumum skrítið að fá súkkulaði í kvöldmatinn 😊 Lindarver og Fjallaver sáu um skemmtiatriðið á kvöldvökunni undir leiðsögn Kristrúnar og fóru stelpunar á kostum, hlátrasköllinn ómuðu um fjöllin þar sem gleðin var svo mikil. Þreyttar og glaðar stelpur lögðust á koddana í kvöld.