Það voru spenntar og skemmtilegar stelpur sem komu í ölver í gær. Veðrið var algerlega dásamlegt, glampandi sól og hiti. Stelpurnar söfnuðust saman inní matsal þar sem tekið var á móti þeim og starfsfólk kynnti sig og hlutverk sitt. Síðan var stelpunum skipt niður á herbergi og fengu aðstoð við að koma sér fyrir. Í hádegismat var boðið uppá hrært skyr, súrmjólk og brauð. Eftir matinn fóru stelpurnar að leika sér og skoða sig um.

Þar sem veðrið var svo dásamlegt var ákveðið að fara í gönguferð niður að læk. Þær sem vildu fengu að vaða og aðrar léku sér eða týndu ber. Þegar líða fór að kaffitíma var kominn tími til þess að ganga til baka. Í kaffitímanum fengu stelpurnar brauðbollur með osti og súkkulaðibitakökur en hér í Ölveri er allt bakað á staðnum.

Eftir kaffi fengu þær sem vildu að skella sér í heita pottinn, hinar fóru í leiki með foringjunum eða léku sér. Hér í Ölveri er ýmislegt hægt að gera t.d. ganga á stultum, fara í snú snú, slaka á í hengirúmi, renna sér í aparólunni  og margt fleira. Við leggjum sérstaklega mikla áherslu á útiveru í þessu góða veðri. Á sama tíma æfðu Hamraver og Skógarver skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna.

Kvöldið gekk vel, í kvöldmatinn var ljúffengt grænmetisbuff með cous cous. Eftir kvöldmat var komið að kvöldvöku en það er alltaf skemmtilegur dagskrárliður í Ölveri. Eftir kvöldvöku er alltaf boðið uppá ávexti og þegar stelpurnar voru að klára ávextina sína þá mættu foringjarnir inní matsal með hörku tónlist því það var að hefjast náttfatapartý stelpunum til mikillar gleði. Það var dansað og trallað og í lokin fengu stelpurnar popp.

Þegar búið var að bursta tennurnar var komið að því að skríða uppí notalega rúmið sitt og njóta kvöldsins með bænakonu sem les fyrir stelpurnar, biður með þeim og situr hjá þeim þar til þær sofna. Margar eru að koma í fyrsta skipti en það var ekki að sjá og allar stóðu sig vel. Hópurinn er mjög flottur, stelpurnar eru glaðar, leika sér saman og allar hafa eignast nýjar vinkonur

Við hlökkum til næstu daga, veðrið er dásamlegt og allir að njóta.

Kveðja Svava Sigríður Svavarsdóttir, forstöðukona