Veisludagur rann upp með dásamlegu sólskini en við erum búnar að vera afar heppnar með veður. Stelpurnar voru vaktar, með ljúfum tónum, klukkan hálf níu eftir góðan nætursvefn. Þær tóku hraustlega til matar síns í morgunmatnum enda stór dagur framundan. Spennan var mikil fyrir veisludeginum sjálfum. Eftir morgunmatinn var fánahylling og síðan tiltekt á herbergjum. Stelpurnar ganga almennt vel um og hefur gengið nokkuð vel að halda utan um dótið sitt.
Á biblíulestri dagsins voru sungin lög og voru hreyfisöngvar mikið notaðir enda gott að liðka sig til eftir nóttina. Stelpurnar lærðu um sköpun Guðs og föndruðu smá verkefni sem tengist sköpuninni. Þær fóru út í náttúruna og týndu ýmsa hluti t.d. blóm, laufblöð, steina, ber o.fl. og útbjuggu listaverk. Þær dunduðu sér við þetta fram að mat en í matinn voru kjötfarsbollur með kartöflumús og grænmeti. Þær voru mjög duglegar að borða eins og þeim er von og vísa.
Eftir hádegismatinn var tilkynnt að næsti dagskrárliður væri hæfileikasýning. Við tóku þrotlausar æfingar og sýningin var hin allra glæsilegasta. Sumar sippuðu, aðrar sungu og enn aðrar dönsuðu. Skemmtileg og fjölbreytt atriði og greinilega hæfileikaríkar stelpur hér á ferð.
Í kaffinu fengu stelpurnar nýbakaða pizzusnúða og rice crispies kökur en þær slá alltaf jafn mikið í gegn. Svo tók við frjáls leikur úti í dásamlega veðrinu og stelpurnar margar skelltu sér í heita pottinn í góða veðrinu.
Þegar búið var að baða sig var komið að því að skella sér í veislufötin og undirbúa sig fyrir veislukvöldið sjálft. Foringjar og aðstoðarforingjar hjálpuðu til við að greiða hárið og gera fínt. Matsalurinn breyttist í hinn glæsilegasta veislusal og nutu stelpurnar þess að borða saman gómsæta pizzu við fallega skreytt borð.
Eftir kvöldmatinn var komið að veislu kvöldvökunni. Mörg lög voru sungin og stelpurnar skemmtu sér konunlega yfir þeim fjölmörgu leikritum sem foringjarnir léku fyrir þær. Þær voru kátar og glaðar og nutu þess að vera saman. Í lok kvöldvökunnar fengu stelpurnar ís og um leið hlustuðu þær á góða hugleiðingu um mikilvægi þess að koma vel fram við aðra og gæta þess að særa ekki fólk með orðum eða gjörðum.
Eftir kvöldvökuna var kominn tími til að fara að sofa enda allar þreyttar eftir góðan og annasaman dag.
Á morgun er svo heimferðardagur og þá verður nóg að gera hjá öllum við að pakka niður og fá stelpurnar aðstoð frá foringjum og forstöðukonu við það. Rútan leggur af stað klukkan 15 frá Ölveri og áætluð koma á Holtaveginn er kl 16.
Kveðja Svava Sigríður Svavarsdóttir, forstöðukona