Flokkurinn fer vel af stað, en hingað komu í gær 46 sprækar og hressar stúlkur.  Eftir að allar höfðu komið sér fyrir í herbergjum  og borðað skyr í hádegismatinn, var farið í skoðunarferð um svæðið sem endaði inni í íþróttahúsi í leikjum.  Í kaffitímanum var boðið upp á skúffuköku og súkkulaðiðbitakökur.

Eftir kaffitíma hófst undirbúningur fyrir tískusýningu og fékk hvert herbergi svartan ruslapoka og garn.  Þær áttu að nota hugmyndaflugið og búa til kjól/dress úr þessu og máttu skreyta að vild.  Eins mátti greiða módelinu fyrir sýninguna og áttu allar í herberginu að hjálpast að. Hugmyndaflugið er ótrúlegt og mátti líta mörg flott listaverk úr ruslapoka og appelsínugulu garni.

Í kvöldmat var boðið upp á steiktan fisk og kartöflur, og borðuðu stúlkurnar mjög vel.  Á kvöldvökunni voru það herbergin Fjallaver og Fuglaver sem sáu um skemmtunina.   Að henni lokinni fengu stúlkurnar ávexti í kvöldhressingu.

Þegar allar voru komnar í náttföt og búnar að bursta tennur kom að því að finna bænakonur herbergjanna og fóru stúlkurnar um húsið í leit að grænum miða, merktum þeirra herbergi.  Á miðanum voru 3 spurningar, sem voru þeirra vísbendingar um hver væri bænakona herbergisins.  Þegar öll herbergi höfðu fundið sína bænakonu, var klukkan langt gengin í tólf og því komin tími til að fara í háttinn.  Spennufallið var mikil eftir fyrsta daginn og áttu flestar stúlkurnar auðvelt með að sofna, enda þreyttar eftir daginn.

Dagurinn í dag hefur svo verið með þéttri dagskrá og nóg er eftir enn :o).

Kveðja frá starfsfólki og stúlkunum í Ölver
Brynja Vigdís, forstöðukona