Dagurinn hófst að venju á því að stúlkurnar voru vaktar kl.09.  Voru þær allar fljótar á fætur og tilbúnar í daginn.  Efti morgunmat, fánahyllingu og biblíulestur hófst hin æsispennandi brennókeppni.

Í hádegismat voru kjötbollur, kartöflur og sósa sem allt rann ljúflega niður.  Að mat lokum voru Furðurleikarnir, þar sem keppt var í hinum ýmsu greinum s.s breiðasta brosinu, skæri-blað-steinn, stígvélagsparki, kjötbollukasti og fleira og fleira.

Sjónvarpskakan og banabrauðið sem boðið var upp á í kaffinu fengu hæstu einkunn hjá stelpunum.  Þegar allar höfðu borðað hófust æfingar fyrir hæfileikasýningu, þar sem boðið var upp á fjölbreytt atriði.  Það var sungið, dansað, sungið á táknmáli, sagðir brandarar og listaverkasýning.  Miklir hæfileika sem liggja í þessum hóp.
Öll herbergin fengu svo að fara í pottinn og sturtu fyrir kvöldmatinn.    Kjúklingaleggir, franskar og salat voru í matinn og tóku stúlkunar vel til matar síns, enda er maður alltaf svangur eftir pottaferð.

Hamraver og Hlíðaver sáum um skemmtiatriðin á kvöldvökunni og boðið var upp á bæði leikrit og leikir, mikið var hlegið og gaman.

Þegar allar stúlkurnar voru háttaðar, komnar inn á herbergi og biðu þar eftir bænakonum sínum, kom í ljós að foringjana var hvergi að finna.  Fóru bæði forstöðukona og ráðskona um allt að leita en urðu á endanum að fá allar stúlkurnar með sér í leitina.  Það var heldur betur fjör á 46 stúlkum sem hlupu um allt á náttfötunum að leita að foringjum og aðstoðarforingjum.  Fundust þeir í jóga úti í íþróttahúsi og var nú slegið upp náttfatapartýi, fyrst í íþróttahúsinu sem síðan var fært inn í kvöldvökusal.  Þar var dansað og sungið af miklum krafti.  Eftir stórkostlegan leiksigur foringjanna fengu allar stúlkurnar ís.
Kvöldið endaði á því að allar stúlkur fóru aftur í að bursta tennur og græja sig fyrir nóttina.  Voru það þreyttar en ánægðar skvísur sem fóru í bólið og steinsofnuðu fljótt eftir bænó.

Þegar þessi frétt er skrifuð heyrast mikil hvatningar- og gleðióp úr íþróttahúsinu, en þar er nú í gangi brennókeppnin.  Sólin skín á okkur í dag sem er frábært því dagurinn í dag inniheldur mörg ævintýri og útiveru.

Kveðja frá okkur í Ölver
Brynja Vigdís, forstöðukona

 

p.s fullt af myndum er komið inn á myndasíðu sumarbúðanna

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157684754112624