Dömurnar voru vakar í dag með ljúfum tónum úr myndinni Beauty and the Beast og vöknuðu þær allar glaðar og úthvíldar.  Að venju var byrjað á morgunmat, fánahyllingu, biblíustund og brennó, þar sem keppnin er heldur betur að harna.

Í hádegismat var boðið upp á fiskibollur og tilheyrandi.  Að mat loknum skelltu þær sér út fyrir og nutu veðursins í smátíma áður en blásið var í lúðurinn og þeim safnað saman inni í matsal.  Þar tók á móti þeim heldur ófrínilegur trúður sem sagði þeim að nú yrði þeim boðið með inn í ævintýraheim.  Leiddi hann hvert herbergið á fætur öðru í gegnum hinn skelfilega en spennandi Ævintýraheim, þar sem stúlkurnar hittu sjóræningja, Þyrnirós og norn.  Skellihlátur og skrækir ómuðu hér um húsið á meðan á þessu stóð.  Að leik loknum fengu stúlkurnar skúffuköku og pizzasnúða.

Eftir kaffi var ratleikur, þar sem þær áttu að fara um svæðið og leysa ýmiss verkefni og spurningar.  Aðalatriðið í ratleiknum var ekki að vera sem fyrstur heldur áttu herbergisfélagar að vinna vel saman og leysa ratleikinn í sameiningu.  Mörg herbergjanna sýndu ótrúlega hæfni í samvinnu og samkennd.

Kvöldmaturinn rann ljúflega niður, en það var grænmetisbuff og couscous.  Gaman var að sjá hversu vel stúlkurnar tóku til matar síns.

Á kvöldvöku voru það Lindaver og Skógaver sem sáu um skemmtunina.  Í lok kvöldvöku fengu stúlkurnar að vita að þær ættu að skella sér inn í herbergi, hátta sig og ef þær vildu ná í sæng og kodda, því nú yrði bíókvöld.  Á mettíma voru þær allar komnar aftur upp í kvöldvökusal og komu sér vel fyrir til að horfa á Bee movie.   Fengu þær popp til að maula, á meðan þær horfðu.

Það voru þreyttar stúlkur sem lögðust á koddan eftir langan og viðburðaríkan dag.

Í dag á veisludegi hefur sólinn leikið við okkur og verður dagurinn í dag ekki síður spennandi en síðustu dagar hafa verið….. já það er mikið sem stendur til :o)

Kveðja úr sólinn og dásemdinn í Ölver
Brynja Vigdís og restin af starfsfólkinu

 

p.s fullt af myndum er komið inn frá sl.dögum

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157684754112624/