Óhætt er að segja að það ríki góð stemmning í Pjakkaflokki í Ölveri. Drengirnir fengu skyr og brauð í hádeginu áður en þeir komu sér fyrir í nýuppgerðum herbergjum neðri hæðar Ölvers, en þeir eru fyrstu dvalargestirnir sem nýta þau. Við gættum þess að vinir yrðu saman og einnig aldursskiptum við í herbergin.

Ungleiðtogar héldu skemmtilega kynningar og ævintýragöngu um staðinn áður en frjáls tími var gefin. Í kaffinu var boðið uppá brauð með osti og gúrku sem og nýbakaða skúffuköku.

Eftir kaffið fórum við hóphristing og fjöleflisleiki. Þá var boðið uppá brennibolta áður en við gáfum val um að taka þátt í leynifélagi eða föndurstund. Flestir völdu leynifélagið sem hittist og læddist út í skóg, hvar við fundum góða laut og stálpuð tré sem ákveðið var að nota til að byggja leynihús undir. Þetta hitti í mark hjá strákunum sem kepptust við að finna sprek og greinar sem þeir röðuðu saman og settu mosa á milli og voru mjög kappsamir um að byggja sér leynifélagsheimili! (ekkert þurfti til nema náttúrna og skógarlund, þeir gleymdu stund og stað og lifðu sig inn í leikinn, hver segir að börn líti ekki uppúr tölvum 😉 ).

Í kvöldmatin var boðið uppá kjúklingaleggi, kartöflubáta í ofni, agúrkur, papriku og kokteilsósu, drengirnir borðuðu vel. Ungleiðtogar stjórnuðu síðan leikjum í íþróttasal áður en kvöldvakan hófst. Í leiðtogahópnum er gítar, píanó og fiðluleikari svo tríó sá um tónlistina!

Drengirnir sáu leikrit, lærðu um sögu Ölvers og skemmtu sér hið besta áður en boðið var uppá ávexti, eftir að þeir höfðu burstað tennurnar var kvöldsaga, bænir og söngur. Þeir voru ekki lengi að sofna og engin heimþrár vandamál.

Í fyrramálið er vakið 8:30 og morgunmatur kl. 9:00. Við erum að vinna í að setja inn ljósmyndir og vonandi náum við því fyrir hádegi á morgun. kveðja Guðni Már og starfsfólkið.