48 kátar og spenntar stúlkur lögðu af stað í Ölver á þriðjudagsmorgun. Þegar komið var á staðinn var þeim skipt í herbergi og í kjölfarið komu allir sér fyrir en stelpurnar eru allt frá 6 og upp í 9 saman í herbergi. Þegar allir voru búnir að búa um sig og koma sér fyrir var blásið í hádegismat (skyr og ristað brauð). Eftir hádegismat var frjáls tími þar sem stelpurnar fengu tækifæri til að kynnast herbergisfélögum sínum og öðrum í flokknum.
Eftir kaffitíma (kanilsnúðar, djús og smákökur) fóru stelpurnar í gönguferð um svæðið til að kynnast því og hver annarri. Gangan endaði svo í íþróttaskálanum þar sem foringjar flokksins kenndu stelpunum brennó. Fljótlega eftir gönguna var blásið til kvöldverðar (steiktur fiskur) en stelpurnar borðuðu vel enda búnar að vera mikið úti yfir daginn.
Kvöldvakan og kvöldkaffið voru svo á sínum stað en það var komin ró í húsið um kl. 23.
Í gær, miðvikudag, var mikið fjör og mikið um að vera en dagurinn byrjaði með hefðbundnum hætti, morgunmat, fánahyllingu, tiltekt og morgunstund. Eftir morgunstund var brennómót flokksins sett en stelpurnar keppa í Ölvers-brennó alla morgna fram að veisludegi.
Í hádegismat fengu stelpurnar kjötbollur með öllu tilheyrandi. Eftir hádegismatinn tók svo við skemmtilegt verkefni sem reyndi mikið á samvinnu stelpnanna og útsjónasemi, en þeim var skipt upp í hópa, þvert á herbergi, og fengu poka sem innihélt: svartan ruslapoka, garn, límband og skæri. Stelpurnar áttu svo að hanna kjól og máttu aðeins nota það sem var í pokanum og það sem finna má úti í náttúrunni. Hver og ein flík sem stelpurnar hönnuðu og útfærðu voru eins og klipptar út úr tískublaði og samvinnan var heldur betur til fyrirmyndar. Eftir að allir hópar höfðu sýnt sína flík eða flíkur tók við kaffi þar sem stelpurnar fengu brauðbollur og Stínu-köku.
Eftir kaffi var farið í gönguferð niður að á þar sem farið var í leiki og stelpurnar fengu að vaða í ánni. Þegar komið var aftur upp í Ölver fóru stelpurnar ýmist í pottinn eða sturtu og fengur svo frjálsan tíma þar sem margar nýttu tímann í að útbúa vinabönd, föndra eða spila.
Kvöldmaturinn sló svo heldur betur í gegn en stelpurnar fengu grjónagraut og voru virkilega ánægðar með það. Eftir mat var fjörug kvöldvaka þar sem stelpurnar fóru í leiki, sungu og fengu að heyra sögu fyrir svefninn. Þegar allir voru svo komnir í náttföt og að vera tilbúnir til að fara að sofa fóru allt í einu að heyrast fjörug tónlist og háværir skellir – það var komið að því …. Náttfatapartý 🙂
Stelpurnar fóru heldur betur sáttar að sofa eftir viðburðarríkan dag og voru mjög fljótar að komast í ró og sofna.
Bestu kveðjur
-Forstöðukona-
Myndir: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157692191068630