Í gær, fimmtudag, var óvissudagurinn mikli hjá okkur hér í Ölveri. Stelpurnar voru vaktar með tónlist og voru því fljótar á fætur en morguninn var með hefðbundnum hætti; morgunmatur, fánahylling, tiltekt, morgunstund og brennó en þegar komið var að hádegismat (kjúklingaleggir) tók óvissan við. Stelpunum var tilkynnt að næst þegar það yrði blásið í lúðurinn ættu þær að mæta inn í matsal, klæddar til að vera úti, en vera með sundföt og föt til skiptana með sér þar sem það væri komið að Óvissuferð. Mikil spenna var í hópnum og töldu margar sig vita hvert ferðinni væri heitið og voru meðal annars handvissar um að þær væru á leið til Akureyrar.

Eftir hádegi kom rúta sem fór með hópinn í Vatnaskóg þar sem stelpurnar, meðal annars, heimsóttu kapelluna, fóru á ljónaveiðar í kúluhúsinu í skóginum, skoðuðu skógarkirkju undir berum himni og fengu útrás í hoppukastalafjöri í íþróttahúsinu. Áður en farið var aftur í rútuna borðaði hópurinn kaffi (Jóhönnu-snúðar, djús og smákökur) í matsal skógarmanna.

Á heimleið var stoppað í Hreppslauginni þar sem hópurinn fór í sund en það vakti heldur betur lukku hjá stelpunum.

Þegar heim var komið fóru stelpurnar beint í það að ganga frá dótinu sínu og settust svo til kvöldverðar (pastasalat og grænmeti).

Kvöldvakan var á sínum stað en þegar henni var lokið og stelpurnar voru að hátta og gera sig klárar fyrir nóttina breytti starfsfólkið kvöldvökusalnum í virkilega huggulegan bíósal og buðu stelpunum svo að koma upp með sængurnar sínar og horfa saman á mynd. Flokkurinn átti rólega stund saman og það tók ekki nema 5 mínútur að fá ró í húsið þegar myndinni var lokið.

Ölverskveðja
-Forstöðukona-