Dagur 4 var heldur betur viðburðarríkur hér í Ölveri.
Stelpurnar byrjuðu daginn á morgunmat, tiltekt og morgunstund en þegar kom að því að fara í brennó var stelpunum tilkynnt að þær ættu að koma inn í matsal en ekki inn í íþróttaskála, mörgum fannst þetta heldur skrítið en fylgdu þó fyrirmælum. Þegar í matsalinn var komið var hverju herbergi úthlutuð vesti (hvert herbergi fékk sinn lit) þar sem það voru að hefjast Fáránleikar. Stelpunum var í kjölfarið úthlutuð byrjunarstöð en alls voru fimm (5) stöðvar á Ölvers-svæðinu og aðeins ein þeirra innandyra. Þrautirnar sem stelpurnar leystu á framangreindum stöðvum voru ansi fjölbreyttar, t.a.m. kepptu þær í köngulóar-boðhlaupi, stígvélasparki, rúsínuspýti, sippi/jötunfötu, BROSI, kjúklingaleggja-björgun og lautarhlaupi. Eftir að hafa klárað leikana með mikilli sæmd voru stelpurnar orðnar svangar en svo skemmtilega vildi til að það var einmitt komið að hádegismat (lasagne).

Eftir hádegismat var svo farið í gönguferð þar sem stelpurnar fengu að njóta náttúrunnar hér í sveitinni algjörlega í botn. Gangan endaði í lautinni okkar hér við Ölver þar sem stelpurnar borðuðu kaffi (heimabakað Ölversbrauð, djús, og eplakaka).

Eftir kaffi fengu stelpurnar tækifæri til að sýna starfsfólkinu og öðrum í flokknum hve ótrúlega hæfileikaríkar þær eru en foringjarnir slóu upp hæfileikasýningu og voru atriðin heil 20 talsins. Mikið var um spilagaldra og söng en jafnframt dans og leiklist.

Kvöldið var heldur hefðbundið framan af, kvöldmatur (ávaxtasúrmjólk og brauð) og kvöldvaka, en í  lok kvöldvöku, þegar stelpurnar voru að syngja kvöldsönginn heyrðist allt í einu kunnuleg tónlist. Inn á kvöldvökuna arkaði inn afar skrautleg kona, litrík og hávær, ásamt hvítklæddum skrautverum. Flokkurinn var ekki lengi að átta sig á því hvað væri að gerast… það var komið að Hungurleikunum. Leikurinn reynir fyrst og fremst á samvinnu stelpnanna en þeim er raðað í lið af handahófi og fá hin ýmsu verkefni í skóginum en markmiðið er að koma hverju liði inn í Umdæmi 13 en leikurinn klárast ekki fyrr en öll lið hafa skilað sér þangað. Þau lið sem hafa skilað sér inn í Umdæmið geta svo aðstoðað hin liðin við að leysa þrautirnar ef og þegar þörf er á.

Stelpurnar leystu þrautirnar og leikinn með prýði í kvöldsólinni og komu svo inn í kvöldkaffi. Þær voru þreyttar eftir leikinn og voru því fljótar að hátta, þegar allar voru komnar upp í sitt rúm og undir sæng opnaði starfsfólkið inn í öll herbergi, settist á ganginn og söng.

Stelpurnar voru fljótar að þagna til að hlusta og voru sofnaðar á inna við 15 mínútum.

Ölverskveðja
-Forstöðukona-