48 hressar og skemmtilegar stúlkur komu upp í Ölver um hádegisbilið í dag. Þeim var skipt upp í herbergi og eftir hádegismat fóru þær í göngu um svæðið og í nokkra skemmtilega leiki. Svo var komið að kaffitímanum, bananabrauðið og súkkulaðikakan slógu í gegn! Svo var byrjað að föndra. Stelpurnar notuðu fingramálningu og föndruðu tré með allskonar glimmeri, pallíettum og sýnu stórkostlega ímyndunarafli. Myndirnar hanga nú á vegg í matsalnum. Í kvöldmat var lasagna og í kjölfarið stórskemmtileg kvöldvaka þar sem þær sungu og dönsuðu. Fljótlega eftir það fóru þær í háttinn. Fyrsti dagurinn gekk mjög vel. Þetta er kröftugur og fjörugur hópur sem tekur þátt í allri dagskrá með jákvæðni og gleði. Það eru svo sannarlega skemmtilegir dagar framundan!

Annar dagurinn var viðburðarríkur. Stelpurnar vöknuðu um níu leytið, borðuðu morgunmat og fengu tíma til að taka til í herbergjunum sínum. Því næst fóru þær á morgunstund. Eftir morgunstundina fengu stelpurnar að gera svokallaða “Tie-dye” boli, en þá fengu þær hvítan bol, rúlluðu honum upp í spíral og lituðu með allskyns fatalitum. Bolirnir liggja svo í litnum yfir nótt og á morgun skola þær bolinn og fá að sjá útkomuna! Svo kom hádegismatur og þá fengu þær grænmetisbuff með kúskús og heimagerðri tsatiki sósu. Efir matinn var haldið niður að á þar sem það var svo gott veður. Þar busluðu þær og nutu þess að fá smá sólargeisla. Svo var haldið heim í kaffi. Eftir kaffi var allskonar í boði, þær sem áttu eftir að lita boli kláruðu það, heiti potturinn var í boði og einnig voru leikherbergi. Leikherbergi eru þannig að tvö herbergi fá tíma til að æfa eitt til tvö leikrit sem þau sýna á kvöldvöku. Svo kom að kvöldmatnum sem var kakósúpa með brauði. Þar sem það var svo gott veður sendum við allar stelpurnar út að leika sér. Þær fundu sér fullt af skemmtilegu útidóti og nutu þess að vera úti í kvöldsólinni. Klukkan hálf níu var svo kvöldvaka og leikherbergin fengu að sýna afraksturinn við mikinn fögnuð hinna stelpnanna. Stelpurnar fengu svo kvöldkaffi og fóru í háttinn, enda voru margar orðnar þreyttar eftir langan og skemmtilegan dag!