Eftir hefðbundna vakningu, morgunmat, fánahyllingu og tiltekt fóru stelpurnar á morgunstund. Í lok stundarinnar klipptu þær út hjörtu og skrifuðu á hvert hjarta eitthvað sem þær eru þakklátar fyrir. Hjörtun verða síðan hengd upp á vegg. Eftir morgunstundina fengu stelpurnar að skola bolina sem voru búnir að liggja í fatalitnum yfir nóttina og við byrjuðum að taka upp tónlistarmyndband við Ölverslagið 2018. Þegar það er tilbúið verður hægt að sjá það á youtube. Svo voru frábærar fiskibollur í hádegismat. Eftir hann var hönnunarkeppni og stelpunum skippt upp í 8 hópa. Þær völdu í sameiningu eina í hverjum hóp til að vera módel og notuðu ruslapoka, skæri og vinabönd til að búa til flotta hönnun. Svo var tískusýning þar sem öll módelin sýndu hönnun síns hóps. Eftir kaffi héldum við áfram að skola bolina, taka upp tónlistarmyndband, þrjú herbergi fóru í pottinn og tvö voru með leikherbergi að undirbúa leikrit fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmat var síðan grjónagrautur og svo kom að kvöldvökunni. Kvöldvakan endaði þó með óvæntum hætti en foringjarnir stungu upp á því við stelpurnar að halda náttfatapartý í staðinn fyrir að fara að sofa. Við mikinn fögnuð þessara frétta drifu stelpurnar sig í náttföt og dönsuðu, sáu leikrit, fengu ís og heyrðu sögu. Svo var haldið beint að sofa enda voru stelpurnar orðnar mjög þreyttar eftir daginn.