Það var aldeilis kröftugur og skemmtilegur hópur af stelpum sem komu í Ölver í gær. Rútuferðin gekk vel og þegar við komum í Ölver byrjuðum við á að skipta öllum stelpunum niður í herbergi og pössuðum upp á að allar vinkonur fengju að avera saman. Eftir það fengum við heimatilbúið skyr og brauð í matinn. Þegar allar voru orðnar saddar fórum við í ævintýragöngu um svæðið sem endaði svo í leikjum í lautinni.

Eftir kaffitímann streymdi hópurinn út í íþróttahús þar sem foringjarnir kenndu þeim brennó og spiluðu svo nokkra leiki. Stelpurnar fengu svo frjálsan tíma sem þær nýttu mjög vel bæði úti og inni.  Í kvöldmat buðum við upp á grænmetisbuff með kúskús og sósu og rann það afar ljúflega ofan í stúlkurnar.

Á hverju kvöldi er kvöldvaka þar sem mikið er sungið og sprellað. Í gærkvöldi sáu stelpurnar í Lindarveri og Hamraveri um skemmtunina og sýndu þær bæði leikrit og voru með leiki sem stelpurnar höfðu mjög gaman af. Þær fengu svo að heyra sögu um Kristrúnu Ólafsdóttur sem stofnaði Ölver. Eftir kvöldvökuna var boðið upp á ávexti og svo háttuðu allar stelpurnar sig og burstuðu tennurnar. Hvert herbergi fékk til sín eina bænakonu en það er foringi sem mun hafa sérstaka umsjón með stelpunum í sínu herbergi, lesa fyrir þær og svæfa á kvöldin. Kvöldið gekk ótrúlega vel fyrir sig og var starfsfólkið hálforðlaust yfir því hve duglegar þær voru að fara að sofa. Allar sváfu þær svo vel í nótt og voru vaknaðar um kl. 8 í morgun.

Eftir morgunmat, fánahyllingu og tiltekt í herbergjunum sínum fóru stelpurnar á Biblíulestur þar sem þær lærðu að þær væru allar dýrmæt sköpun Guðs og að hver og ein þeirra væri einstök. Stelpunum var svo skipt í 6 lið og eru þær núna allar úti í íþróttahúsi að keppa í brennó. Þeirra býður svo hakk og spaghettí í hádegismat og spennandi dagskrá eftir matinn. Að sjálfssögðu verður svo boðið upp á að horfa á Ísland-Króatía fyrir þær sem það vilja á eftir.

En ég læt þetta duga í bili og skila kærri kveðju héðan úr Ölveri þar sem sólin er sífellt að reyna að brjótast fram úr skýjunum. Bendi ykkur á að það eru komnar nokkrar myndir frá fyrsta deginum. Minni svo á að það er alltaf hægt að hringja í mig í símatíma milli kl. 18-19 á hverjum degi í síma 433 8860.

Kærleikskveðja,

Hjördís Rós forstöðukona í 4. flokk.