Það hefur verið nóg um að vera hjá okkur í Ölveri síðasta sólarhringinn. Eftir hádegismatinn í gær fóru allar stelpurnar út þar sem keppt var í ýmsum skrýtnum þrautum, meðal annars stígvélasparki, tuskukasti, broskeppni og gúrkufimi. Eftir útiveruna var boðið upp á bananabrauð og sjónvarpsköku. Heiti potturinn beið þeirra og fóru allar stelpurnar í hann. Þær sem vildu gátu fengið andlitsmálningu með íslensku fánalitunum enda var Ísland-Króatía næst á dagskrá. Rúmlega helmingurinn af hópnum fylgdist með leiknum en hinar dunduðu sér á meðan í ýmis konar föndri og leikjum.
Kvöldmaturinn var með öðru sniði en venjulega. Stelpurnar skelltu í sig kakósúpu og brauði í hálfleik en héldu svo áfram að horfa á leikinn. Þrátt fyrir úrslitin var áfram góð stemmning hjá stelpunum sem héldu kátar á kvöldvöku. Mikið var sungið og stelpurnar í Hlíðarveri og Skógarveri sáu um skemmtiatriði kvöldsins. Eftir kvöldvöku og kvöldkaffi fóru stelpurnar í náttföt og burstuðu tennurnar. Vel gekk að svæfa allar og sváfu þær vært í alla nótt.
Eftir morgunmat, fánahyllingu og tiltekt í herbergjum, var Biblíulestur. Þar fengu stelpurnar að heyra söguna um Gussa og hina Vimmana úr bókinni ,,Þú ert frábær“. Þá var haldið út í íþróttahús þar sem brennókeppni vikunnar hélt áfram. Í hádegismat var boðið upp á fiskibollur með soðnum kartöflum og sósu. Stelpurnar eru mjög duglegar að borða hér í Ölveri. Í þessum töluðu orðum var að klárast hæfileikasýning þar sem stelpurnar sýndu listir sínar. Næst á dagskrá er kaffi og svo heiti potturinn.
Nýjar myndir eru komnar inn á myndasíðuna. Og ég minni á símatímann milli kl.18-19 alla daga í síma 433 8860.
Ölverskveðjur,
Hjördís Rós, forstöðukona í 4. flokki