Þá er komið að nýjum fréttum héðan úr Ölveri. Eflaust taka einhverjir eftir því að fréttirnar koma seinna inn en venjulega en það er búið að vera mikið fjör hjá okkur síðasta sólarhring. Það er gleðilegt að segja frá því að í gær fengum við aðeins að sjá til sólar. Stelpurnar voru ekki lengi að stökkva í stuttbuxur og stuttermaboli og koma út í sólina. Í kvöldmatinn í gær fengum við grjónagraut og svo var haldið á kvöldvöku. Stelpurnar í Fuglaveri og Fjallaveri skemmtu okkur með frábærum atriðum. Í lok kvöldvökunnar birtust kind og belja á svölunum okkar sem vildu ólmar komast inn. Þetta voru þó ekki alvöru dýr heldur foringjar í búningum og í kjölfarið var náttfatapartý.

Í morgun vöktum við svo stelpurnar klukkan 9 enda fórum við seinna að sofa í gær. Eftir venjulega morgundagskrá var biblíulestur þar sem stelpurnar fengu að heyra söguna um það þegar Jesús stillti storminn og þær lærðu að við getum alltaf treyst Guði. Brennókeppnin var á sínum stað og eftir hana var boðið upp á ávaxtasúrmjólk í hádegismat. Næst á dagskrá var ratleikur um svæðið. Því miður var veðrið ekki mjög sumarlegt. Flestar létu veðrið þó ekkert á sig fá og skiluðu inn hálf rifnum og blautum svarblöðum eftir rúmlega klukkutíma útiveru í roki og rigningu. Það var því gott að komast inn í kaffi. Eftir kaffitímann fóru stelpurnar í heita pottinn eða í sturtu og við tók hárgreiðslustofa Ölvers þar sem foringjarnir og aðstoðarforingjarnir greiddu stelpunum. Í kvöldmat fengu stelpurnar Ölvers pizzu og ís í eftirrétt. Þá var komið að veislukvöldvökunni. Á henni sýndu foringjarnir og aðstoðarforingjarnir leikrit og skemmtu stelpurnar sér konunglega. Í lokinn sungum við saman nýja Ölverslagið. Allar stelpurnar sofnuðu svo vært eftir skemmtilegan veilsudag.

Á morgun (29. júní) er svo heimferðardagur. Rútan leggur af stað héðan úr Ölveri um kl. 15. Við áætlum að vera komnar á Holtaveg 28 rétt fyrir kl. 16. Stelpurnar eru orðnar spenntar að hitta foreldra sína enda búnar að standa sig vel í Ölveri. Nýjar myndir eru komnar á myndasíðuna. Starfsfólkið hér í Ölveri vill fá að þakka kærlega fyrir þessar frábæru stelpur. Það er búið að vera yndislegt að kynnast þeim og frábært að hafa þær. Vonandi fáum við að hitta þær aftur hér í Ölveri að ári.

Ölverskveðja,

Hjördís Rós, forstöðukona í 4. flokki