46 kátar og spenntar stelpur komu í Ölver í hádeginu í dag. Þeim var raðað niður í herbergi  en þau eru sex talsins. Svo fengu þær skyr og brauð í hádegismat. Eftir hann fóru þær í göngu um svæðið og í leiki inni í íþróttasal þar sem það var of blautt til að vera úti. Þær lærðu að spila brennó en það verða brennókeppnir alla morgna. Í kaffinu fengu þær snúða og kleinur og eftir kaffi var hönnunar og tískusýning Ölvers. Þá fékk hvert herbergi einn svartan ruslapoka, skæri og bönd og áttu að hanna eitthvað flott á eina stelpu í herberginu. Þær létu sko hugmyndaflugið ráða og fóru út og sóttu allskonar blóm, greinar og laufblauð til að nota í hönnuninni. Að lokinni tískusýningunni var frjáls tími áður en kvöldmaturinn hófst kl. 18:30. Þá fengu þær ótrúlega góðan steiktan fisk með kartöflubátum og salati. Síðan var kvöldvaka þar sem þær sungu, sáu foringjana leika nokkur skemmtileg leikrit og horfðu á stutt fræðslumyndband. Eftir kvöldvökuna fóru þær svo að hátta, bursta og pissa en fóru svo allar inn í sal því þær áttu eftir að fá að vita hver bænakonan þeirra yrði. Hvert herbergi fékk miða með þreimur staðreyndum um þeirra bænakonu. Svo fóru þær út að leita að bænakonunum og áttu að spyrja hana út í staðreyndirnar á miðanum. Sumar voru fljótar að finna sína en aðrar aðeins lengur. Þegar allar voru fundnar fóru þær inn í herbergin að sofa. Þessi hópur er hreint út sagt frábær, þær eru ótrúlega hlýðnar og góðar. Það verður gaman að gera eitthvað skemmtilegt í vikunni með þessum frábæru stelpum!