Góðan dag! Í dag gerðum við margt skemmtilegt. Morguninn var hefðbundinn, morgunmatur, fánahylling, tiltekt, morgunstund og brennó. Í hádegismat fengu stúlkurnar grænmetisbuff og kúskús og beint eftir hádegi var farið í svokallaðan ævintýragang sem sló rækilega í gegn. Eitt og eitt herbergi fór fór fram á gang í einu með bundið fyrir augun. Einn foringi leiddi þær inní nokkur herbergi sem foringjarni höfðu undirbúið og skreytt meðan stelpurnar voru í brennó. Í einu herberginu var alveg dimmt, enda búið að þekja það með svörtum ruslapokum. Þar inni leyndist norn sem var með ógeðisdrykk sem stelpurnar þurftu að smakka (hafragrautur með matarlit og nokkrum bragðefnum.) Í öðru herbergi voru hvít lök úti um allt og fullt af greinum. Þar inni lá þyrnirós og þurftu stelpurnar að reyna að vekja hana með söng. Í þriðja herberginu var kapteinn krókur og fjórða stöðin var inni á klósetti þar sem Vala úr Harry Potter var mætt. Þær áttu að giska á hvaða vaskur væri leiðin að leyniklefanum. Endastöðin var bíómynd uppi í sal á meðan allir fóru í gegnum ævintýraganginn. Eftir kaffi voru síðan Ölversleikar en þá kepptu stelpurnar í allskonar skrítnum og ekki skrítnum íþróttakeppnum eins og stígvélakasti, rúsínuspýtingum, broskeppni, sippkeppni, kleinubjörgun og mörgum öðrum. Svo fengðu þrjú herbergi að fara í pottinn og tvö voru með leikherbergi, en þá fá þau að undirbúa leikrit fyrir kvöldvöku. Í kvöldmat var ávaxtasúrmjólk og í kjölfarið skemmtileg kvöldvaka. Í lok kvöldvökunnar fengu stúlkurnar hringingu á skype uppi á skjávarpanum. Þá var Jójó foringi að hringja þar sem hún var úti og hafði séð einhverjar furðulegar hvítar kúlur. Hún bað stelpurnar að koma og hjálpa sér að finna út hvað þetta væri. Allar stelpurnar komu út og sáu þrjá stóra hvíta hnoðra á jörðinni. Jójó hélt því fram að þetta væru geimverur frá sykurplánetunni sem höfðu stolið nike skóm (það sást í einn nike skó undir einum hvíta hnoðranum). Svo byrjuðu hnoðrarnir að tala og kom þá í ljós að þeir v0ru einmitt sykurpúðar frá sykurplánetunni. Þeir voru með fullt af litlum sykurpúðum handa stelpunum og fengðu þær að grilla þá. (Þetta voru semsagt foringjar með lak yfir sér). Við grillið heyrðu stelpurnar hugleiðingu, sungu nokkur lög og fóru svo inn að sofa.