Það voru 47 kátar og spenntar stelpur sem komu til okkar í Ölver í dag. Sumar hafa komið áður í en flestar voru að koma í fyrsta sinn. Stelpunum var safnað saman inní matsal þar sem starfsfólkið kynnti sig og fór yfir helstu reglur og mikilvægar upplýsingar áður en þeim var raðað í herbergi. Þá var komið að hádegismat og Kristín matráður töfraði fram ávaxtasúrmjólk og smurt brauð. Því næst var rölt yfir í íþróttahús í leiki og brennó kynntur fyrir þeim. Í kaffitímanum var boðið upp á köku með bleiku kremi og súkkulaðibitaköku. Þar sem það hefur verið vindasamt hjá okkur í dag var ákveðið að bjóða upp á kósýstund með vinaböndum, perl og litabækur og útiveru fyrir þær sem vildi skoða sig um úti.

Tvö herbergi undurbjuggu leiki og leikrit fyrir kvöldið, mikil spenna fyrir fyrstu kvöldvökunni. Í kvöldmatinn var grænmetisbuff, kúskús, grænmetissósa og salat. Þá var blásið í kvöldvöku, þar var sungið, Lindarver og Hamraver sýndu leikrit og stýrðu leikjum. Stelpurnar fengu svo kvöldhressingu og leituðu að bænakonunum sínum (foringinn sem sér um ákveðið herbergi). Bænakonunar fylgdu sínum stúlkum inn í herbergi þar sem þær lásu fyrir þær og báðu með þeim bænir. Ró var komin á um kl.23.30 en einhverjar voru lengi að sofna eins og eðlilegt er á nýjum stað.

Á morgun bíður þeirra dagur fullur af nýjum ævintýrum en meira um það síðar.

Bestu kveðjur héðan úr Ölveri

Ólöf Dómhildur