40 hressar og spenntar tánings-drottningar mættu í Ölver í hádeginu í gær.  Helmingurinn er að mæta til okkar í fyrsta skipti og virkilega gaman að sjá svona mikið af nýjum andlitum.

Stelpurnar byrjuðu á því að safnast saman í matsalnum þar sem starfsfólkið kynnti sig og þær reglur sem gilda hér á staðnum. Eftir það skipti starfsfólkið stelpunum í herbergi en þær eru allt frá  fimm (5) og upp í níu (9) saman í herbergi.  Þegar allir voru búnir að koma sér fyrir og borða hádegismat (ávaxtasúrmjólk og brauð) var farið í gönguferð um svæðið. Gönguferðin endaði á leikjum niðri á fótboltavelli þar sem stelpurnar lærðu meðal annars nöfn hverrar annarrar. Þegar stelpurnar komu aftur upp í hús var komið að kaffi (djús, skúffukaka og súkkulaðibitakökur).

Eftir kaffitímann var nammi-spurningarkeppni þar sem stelpurnar kepptu bæði sem einstaklingar og í liðum.

Í kvöldmat var boðið upp á tortilla hlaðborð með öllu tilheyrandi og stelpurnar virkilega sáttar með það. Eftir matinn var komið að kvöldvöku en þar var mikið sungið ásamt því að starfsfólkið sýndi leikrit og fór í leiki með stelpunum.

Eftir kvöldvöku tók við kvöldkaffi (ávextir) og stelpurnar höfðu sig til fyrir nóttina. Þegar allir voru komnir í náttföt og komið var að því að bursta tennurnar var allt í einu blásið í lúðurinn. Stelpunum var örlítið brugðið þar sem þær áttu nú allra síst von á að heyra í lúðrinum á þessum tíma dags. Þær voru þó fljótar að átta sig á því að safnast saman inni í matsal. Þar tók forstöðukonan á móti þeim og tilkynnti þeim að það væri komið að „bænakonuleit“ – hún ráðlagði þeim að halda hópinn og hlusta vel við leitina. Stelpurnar voru ekki lengi að hlaupa af stað en áttu þó ekki von á því sem tók á móti þeim í íþróttahúsinu….. frá íþróttahúsinu heyrðist hávær tónlist og þar var að finna allt starfsfólk flokksins á náttfötunum …. NÁTTFATAPARTÝ!!!

Eftir að hafa dansað og hlegið saman í góða stund voru stelpurnar tilbúnar að fara að sofa. Það tók suma aðeins lengri tíma að sofna, eðlilega nýtt rúm og nýr staður 🙂 Brunakerfið okkar ákvað líka aðeins að láta vita af sér í nótt þar sem rafmagnið fór af svæðinu (bilun í kerfi með tilheyrandi „pípi“) svo það hafði örlítil áhrif á svefn stelpnanna en þær fengu að sofa aðeins lengur í morgun á móti.

Ölverskveðja
-Forstöðukona-