Það var heldur betur blíðan hjá okkur hér í Ölveri í dag.

Þegar sólin vakti starfsfólkið í morgun voru þær fljótar að breyta planinu, panta rútu og stilla upp óvissuferð fyrir flokkinn. Það var lítið annað í stöðunni en að grípa tækifærið og nýta alla þá útgeislun sem gula vinkona okkar var tilbúin að gefa frá sér.

Dagurinn byrjaði með hefðbundnum hætti en eftir hádegismat (grænmetisbuff) var hengdur upp listi með því sem stelpurnar þurftu að pakka í tösku fyrir ÓVISSUFERÐ. Sumt á listanum fannst stelpunum heldur skrítið en létu það þó ekki á sig fá og fylgdu fyrirmælum starfsfólksins í einu og öllu. Rútan mætti svo á svæðið að sækja hópinn kl. 13:30 og brunaði með okkur á Akranes þar sem við byrjuðum á því að fara niður á Langasand að leika smá og fórum svo í sund. Sundlaugin á Akranesi sló heldur betur í gegn hjá okkar konum en þær sem vildu ekki fara í sund fóru í Kubb og fleiri leiki á leiksvæði fyrir neðan sundlaugina. Eftir sundið voru allir orðnir rosalega svangir og var því ákveðið að taka kaffitímann úti á grasinu hjá sundlauginni. Rútan skilaði okkur svo heim í Ölver rétt fyrir kl. 19 í kvöld.

Eftir kvöldmat (kjúklingaréttur) var líkt og áður kvöldvaka með öllu tilheyrandi og sannaðist enn og aftur hve skemmtilegar og flottar þessar stelpur eru. Eftir kvöldvöku tók svo við skemmtilegt verkefni sem reyndi mikið á samvinnu stelpnanna og útsjónasemi, en þeim var skipt upp í hópa eftir brennóliðum, og fékk hver hópur svartan ruslapoka. Hópurinn átti svo að hanna kjól og mátti einungis nota ruslapokann og það sem finna má úti í náttúrunni. Þær fengu svo frjálsa aðferð við hár og snyrtingu. Hver og ein flík sem stelpurnar hönnuðu og útfærðu voru eins og klipptar út úr tískublaði og samvinnan í hópunum til fyrirmyndar.

Matsalnum var breytt í tískupall þar sem allir hópar sýndu sína flík og kynntu sína hugmynd fyrir hinum í flokknum.

Eftir frábæra og líflega hönnunar- og tískusýningu var komið að því að bursta og hátta. Þegar allir voru tilbúnir og komnir upp í sitt rúm settust starfsstúlkunar á ganginn með gítar og sungu róleg og falleg lög fyrir stelpurnar.

Sumarkveðja úr Ölveri
-Forstöðukona-