Hingað í Ölver komu í gær 21 stúlka. Um helmingur þeirra hefur komið áður í Ölver og hinn helmingurinn því að upplifa sumarbúðir í fyrsta skiptið. Stelpunum var skipt niður í 4 herbergi og passað upp á að allar vinkonur, frænkur eða systur fengju að vera saman í herbergi. Herbergin hér í Öl-veri enda öll á -ver, en stelpurnar eru í Hlíðarveri, Hamraveri, Lindarveri og Skógarveri. Eftir að stelpurnar höfðu komið sér fyrir var hádgegismatur, skyr og brauð. Þær fóru svo í gönguferð um svæðið, en hér er aparóla, rólur, skógur, íþróttavöllur, leikskáli, laut, bátur til að leika í og ýmisleg fleira.
Í kaffitímanum var eins og alltaf boðið upp á heimabakað bakkelsi, bananbrauð og karamellulengjur. Eftir kaffitíma var svo boðið upp á að fara í heita pottinn og svo var helmingur stelpnanna sem undirbjó leikrit fyrir kvöldvökuna. Stelpurnar tóku vel til matar síns í kvöldmatnum, grænmetisbuff og cous cous.
Kvöldvakan var svo á sínum stað, þar sem sýnd voru leikrit, Ölverslög sungin og stelpurnar fengu að heyra um Kristrúnu sem að stofnaði Ölver og einnig um Sr. Friðrik stofnanda KFUK/M á Íslandi.
Við ákváðum að nýta veðurblíðuna og buðum stelpunum að grilla sér brauð á trjágrein sem þeim þótti spennandi en jafnframt reyndi það aðeins á þolinmæðina hjá einhverjum.
Eftir það var háttað og burstað og bænakona svokölluð kom inn í hvert herbergi, en þær lesa og biðja bænir með stelpunum og hjálpa þeim að komast í svefn.
Ró var komin í skálann um 22:30 og gekk flestum vel að sofna og sváfu í alla nótt.
Veðrið er áfram gott og ætlum við að nýta okkur það í dag og fara í göngutúr niður að á.
Myndir frá deginu í gær má nálgast hér
https://flic.kr/s/aHsmg5kM9L
Ölverskveðjur