Komum hingað í Ölver rétt eftir hádegi í dásemdar veðri. Eins og venja er við komu, fóru allar stúlkurnar inn í matsal þar sem þær voru boðnar velkomnar, starfsfólk kynnti sig og farið var yfir helstu reglur á staðnum.
Eftir það var stúlkunum skipti niður á herbergi og gekk það vel að vanda.

Þegar allar voru búnar að koma sér fyrir var blásið í hádegismat og boðið upp á skyr og brauð. Eftir mat var farið í göngutúr um svæðið, þar sem stúlkurnar fengu að sjá allt það sem Ölver bíður upp á, og að göngutúr og kynningu á svæðinu loknu nutu þær góða veðursins og voru úti í leikjum.

Í kaffitímanum fengu þær jógúrköku og kókoskúlur, sem hvoru tveggja rann ljúflega niður. Þar sem allt er aðeins í seinni kantinum á komudegi, var tíminn milli kaffis og kvöldmatar ekkert langur og stúlkurnar notuðu hann til að kynnast hvor annarri og svæðinu betur.

Rétt um kl.19 fór að ilma um húsið lykt af steiktum fisk og kartöflum, sem hvoru tveggja rann ljúflega niður í hópinn og borðuð þær mjög vel.

Á kvöldvöku fyrsta dags, var það Hamraver sem sá um leikrit og leiki. Hlýddu þær svo á hugvekju sem einn foringjanna flutti og eftir söng og bæn, var farið inn í herbergi að græja sig fyrir nóttina.

Þegar allar stúlkurnar voru komnar í rúmið, fóru aðstoðarforingjarnir áhyggjufullir inn í öll herbergi að láta vita að foringjarnir væru týndir og þær þyrftu að fara að leita að þeim – svo hægt væri að finna út hver væri bænakona hvers herbergis. Þær voru ekki lengi að finna foringjana og eins að finna út hvaða bænakonu þær fengju. Nokkur galsi var í mannskapnum eftir leitina en eftir að stúlkurnar kynntust aðeins bænakonu síns herbergis tók ekki langan tíma að koma ró á húsið. Um miðnætti voru þær allar sofnaðar og sváfu í alla nótt.

Kveðja úr dásemdinni í Ölver