Þegar við vöknuðum í morgun leit út fyrir annan dásemdar dag, verðurfarslega hér í Ölver, heiður himinn og glampandi sól. Eftir morgunmat var hefðbundin morgundagskrá sem samanstendur af tiltekt í herbergjum, biblíulestri og brennókeppni. Brennólið flokksins bera nöfn tískumerkja, en fyrsta kvöldvökuhugleiðingin fjallaði um það hvað er í tísku og hvað fellur aldrei úr tísku – eins og Biblían, hana ætlum við alltaf að hafa í tísku.
Liðin heita; Nike, Puma, Stussy, Henson, Adidas og Biblían. Að venju er strax komin hörku keppni á milli liða og verður spennandi að sjá hvaða lið vinnur keppnina.

Í hádegismat var boðið upp á kjötbollur, kartöflumús og grænmeti. Þegar allar höfðu borðað nægju sína var farið í góða veðrinu niður að læk. Áður en haldið var af stað var passað upp á að allar stúlkurnar væru búnar að bera á sig nóg af sólarvörn, því ekki viljum við sólbrenna og geta ekki notið þess að vera áfram úti.

Kanilsnúðar og karamellulengjur runnu ljúflega niður eftir göngutúrinn og sullið í læknum. Tók nú við undirbúningur fyrir hárgreiðslusýningu og voru margar skemmtilegar og flottar hárgreiðslur sem stúlkurnar gerðu í hvor aðra. Hoppukastalinn var blásinn upp og mikið notaður í dag líka.
Það var gott að koma aðeins inn og hvíla sig á góða veðrinu, og fá sér pasta hlaðborð í kvölmatinn. Tóku stúlkurnar hraustlega til matar síns eftir alla útiveruna.

Á kvöldvökunni voru það Hlíðarver og Fjallaver sem sáu um atriði kvöldsins. Að kvöldvöku lokinni héldu dasaðar og ánægðar stúlkur inn í herbergi að græja sig fyrir nóttina. Þegar það var við það að komast ró á húsi, upphófst söngur og skálasláttur, og hafið var náttfataparti. Allar stúlkurnar komu upp í kvöldvökusal aftur, nú á náttfötunum og var dansað, sungið og sýndu foringjar leikþætti, ásamt því að stúlkurnar fengu ís.
Þegar klukkan var farin að nálgast miðnætti, fóru þær aftur niður að bursta tennur og græja sig fyrir svefninn og voru það þreyttar en sælar stúlkur sem lögðust á koddann og sofnuðu fljótt.

Kveðja frá okkur í Ölver
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157708985286143