Aftur vakti sólinn okkur með geislum sínum og Ölver skartaði sínu fegursta. Allar stúlkurnar höfðu fengið góðan svefn og voru því klárar í ævintýri dagsins. Eftir morgunmat, biblíulestur og brennó fengu þær kjúklingaleggi og franskar í matinn.
Eftir hádegismat var farið í göngutúr upp að Steini og gekk gangan vel og rösklega. Í kaffitímanum var boðið upp á skinkuhorn og súkkulaðiköku.
Eftir kaffi fóru öll herbergi í pottinn og þær sem biðu eða voru búnar, nutu þess að vera úti, aðrar gerðu vinabönd eða bókamerki.
Á boðstólnum í kvöldmatnum var tómatsúpa með pasta.
Að venju var kvöldvaka og að þessu sinni voru það stúlkurnar í Fuglaveri sem sáu um atriði kvöldsins. Þegar verið var að syngja kvöldsönginn komu óvæntir gestir inn í salinn og voru þarna komar persónur úr Harry Potter sem sögðu að úti væru fleiri persónur úr sögunni sem þyrfti að finna og eins að vara sig á. Var stúlkunum skipt í 4 lið – Gryffindor, Ravenclaw, Slytherin og Huffelpuff. Fara þurfti út að og finna Harry sjálfan og fá teiknaða ör á enni, þar á eftir finna Hermione og fá hjá henni töfrasprota, og þá fyrst gátu þær farið til Sirius Black sem gaf þeim lestar miða í Hogwarts lestina sem kom þeim í mark. Á leiðinni gátu þær svo hitt „vitsugur“ og Voldemort sem komu þeim í klandur og þá var mikilvægt að stúlkurnar sýndu samvinnu til að stoða hver aðra.
Þegar blásið var í lúðurinn að leik loknum, komu allar stúlkurnar inn í matsal og það var búið að græja vöfflur og heitt kakó fyrir svefninn.
Það voru þreyttar stúlkur sem græjuðu sig fyrir nóttina og sofnuðu fljótt við söng bænakvennanna.
Forstöðukona