Við leyfðum stelpunum aftur að sofa aðeins lengur í dag og vöktum þær klukkan 9:30. Eftir morgunmat fóru allar stelpurnar að pakka ofaní töskur, voru þær mjög hjálpsamar við hvor aðra, hjálpuðust að við að draga töskurnar út að rútunni og troða sængunum ofaní pokana.
Á Biblíulestrinum minntum við þær á að reyna að muna það sem þær eru búnar að læra í Ölveri, um kærleikann, um að vera skilningsríkar og tillitsamar, muna að þær eru einstakar eins og þær eru, og alltaf að vera besta útgáfan af sjálfri sér. Eftir Biblíulesturinn var loksins komið að brennó! Þetta var enginn venjulegur brennó heldur var sigurliðið að keppa á móti foringjunum! Adidas bar sigur í bítum og fékk að keppa á móti foringjunum. Að sjálfsögðu unnu foringjarnir enda ósigraðir (svona næstum). Eftir foringjasigurinn fengu allar stelpurnar að keppa við foringjana og eftir mjög harða keppni unnu foringjarnir aftur. Stelpurnar ekki sáttar með það, en foringjarnir dönsuðu úr gleði.
Boðið var upp á grillaða pyslur eftir brennó úti í góða veðrinu. Mjög sáttar með að pylsur væru síðasta máltíðin og borðuðu þær vel af þeim. Beint eftir hádegismat fórum við upp í kvöldvökusal þar sem við sungum saman í síðasta skipti í þessum flokk, og svo var verðlauna afhending. Þær fengu verðlaun fyrir brennó, Ölversleikana, hegðunarkeppnina, hárgreiðslukeppnina, hæfileikasýninguna og fékk eitt herbergi verðlaun fyrir sýningu sína á kvöldvöku þar sem Skógarver sýndi okkur leikritið Gríshildur og við vorum allar sammála því að við höfum aldrei séð svona góð leiktilþrif áður. Gáfum við þeim hvatningar verðlaun fyrir það og vonum við allar sem horfðum á, að þær haldi áfram að leika svona vel. Verðlauna afhending kláraðist og áttuðu stelpurnar á að núna væru þær að fara heim. Dagurinn endaði með mikið af knúsum og nokkrum tárum. Margar eru spenntar að fara heim að hitta foreldra sína en sumar ætla að flytja upp í Ölver og vera þar að eilífu.
Það hefur verið ótrúlega skemmtilegt að fá að vera þessa viku með öllum þessum flottu stúlkum og fá að kynnast þeim. Þær voru einstaklega prúðar, jákvæðar og kurteisar, já alveg hreint til fyrirmyndar allar sem ein.
Hlökkum til að hitta þær aftur í Ölver
Forstöðukona, foringjar og aðstoðarforingjar í 1.flokki – Ævintýraflokki
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157708985286143